Pólitísk ást

Inga Sigrún Atladóttir
Inga Sigrún Atladóttir

Hvaða afl er það sem fær fólk til að taka þátt í pólitísku starfi eða reyna að skapa betri framtíð með pólitískri umræðu?

Það gætu verið peningalegir hagsmunir, áhugi á að stjórna öðrum eða hégómleg þörf til að vekja á sér athygli.

Í heimspekilegri umræðu hefur pólitísk ást verið þekkt frá tímum grísku heimspekinganna og í nútímaumræðu hefur Hannah Arendt gert hugmyndinn skil. Hugmyndin er nokkuð framandi í nútíma pólitískri umræðu og vantraust á stjórnmálamenn á síðustu árum hefur ekki verið til að koma hugmyndinni í umræðuna. 

Pólitísk ást er djúpstæð tilfinning sem knýr fólk til aðgerða. Pólitísk ást felst í að hafna samfélagsuppbyggingu sem leiðir af sér óréttlæti og neita að sætta sig við að ekkert sé hægt að gera í málinu. Pólitísk ást felst í því að skapa réttláta framtíðarsýn og berjast til að koma henni í framkvæmd. Pólitísk ást er að þora að gagnrýna óréttlæti sem flestum þykir sjálfsagt og standa upp fyrir óvinsælan málstað sem enginn hefur tekið að sér að verja. Pólitísk ást færir ekki frið í samfélög heldur rótar upp því hefðbundna, skapar átök og innri baráttu. 

Í sögunni er að finna einstaklinga sem voru knúnir áfram af ást á réttlátu samfélagi. Barátta Lúters gegn katólsku kirkjunni, barátta M.L. King gegn aðskilnaðarstefnunni í Bandaríkjum og barátta Gandi á Indlandi eru aðeins nokkur dæmi. Sagan er full af fólki sem hefur barist fyrir réttlæti í samfélögum sem í upphafi átt sér fáa talsmenn. Í örfáum tilvikum nær barátta fyrir réttlátara samfélagi miklum árangri en dæmi um baráttu sem skilaði litlu eru mun fleiri.  

Lúter hafði framan af ævinni verið friðsæll munkur. Stuttu fyrir ríkisþingið 1517 hafði hann  hengt upp mótmæli gegn gengdarlausri peningasöfnun yfirvalda, valdnýðslu og skoðanakúgun. Lúter barðist fyrir því að heilbrigð umræða gæti átt sér stað um skipan samfélagsins og gegn því að kirkjuleg völd einokuðu þá umræðu.  Mótmæli Lúter voru ekki óvenjuleg og voru ekki vandmál í sjálfu sér. Vandi ríkjandi valdhafa fólst í því að mótmælin höfðu leyst úr læðingi holskeflu óánægju og mótmæla almennings sem ráðamenn réðu ekki við.

Pólitísk ást er mikilvæg í samfélögum og það þarf ekki að taka þátt í pólitík til að finna henni farveg. Fólk getur fundið henni farveg í almennri umræðu, á vinnustað eða við mataborðið heima hjá sér. En hvert sem sviðið er getur pólitíks ást aðveldlega kallað fram harðra andstöðu, niðurlægingu og útilokun. Það er áhætta sem óhjákvæmilegt þarf að taka.     

Inga Sigrún Atladóttir.

Inga Sigrún er frambjóðandi í forvali Vinstri grænna á Akureyri.


Nýjast