Alexander Smári Kristjánsson Edelstein píanóleikari heldur tónleika í Hömrum í Hofi í dag, föstudag, kl. 14:00. Alexander, sem er aðeins 17 ára gamall, hefur nú þegar getið sér gott orð fyrir tónlistarhæfileika sína. Hann hélt tónleika í apríl síðast liðnum á Kirkjulistaviku í Akureyrarkirkju og heillaði áhorfendur með listfengi sínu.
Alexander hlaut 1. verðlaun í píanókeppni EPTA árið 2012 og sama ár hlaut hann viðurkenningu Nótunnar sem er uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem fram fer í Eldborgarsal Hörpu. Á haustdögum 2014 hlaut hann styrk úr Menningarsjóði KEA fyrir ungt afreksfólk.
Á tónleikunum í dag leikur Alexander verk eftir Bach, Schubert, Chopin, Rachmaninoff og Liszt. Það er Tónlistarfélag Akureyrar í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar sem stendur fyrir tónleikunum.
Miðaverð er 2900 krónur en félagsmenn Tónlistarfélagsins fá miðann á 1900 krónur.