Pétur Heiðar Kristjánsson hefur verið seldur frá Þór til úrvalsdeildarliðs Keflavíkur í knattspyrnu. Hann er 25 ára sóknar- og miðjumaður sem uppalinn er hjá Þór og hefur leikið með félaginu stærstan hluta síns ferils. Pétur er afar teknískur og útsjónarsamur knattspyrnumaður sem hefur átt góða spretti með Þórsurum það sem af er sumars og hafði áður en hann var seldur tekið þátt í öllum leikjum liðsins. Ljóst er að þetta er talsverð blóðtaka fyrir Þór en þar á bæ vildu menn ekki standa í vegi fyrir tækifæri Péturs til að spila í efstu deild.
Hjá Keflavík hittir Pétur fyrir kunnuleg andlit því að Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, þjálfaði Þór á árunum 1999-2002 og með liðinu leika Hallgrímur Jónasson og Baldur Sigurðsson sem báðir hafa leikið með Þór.