Pasta Amatriciana og Tiramisu con fragole

Ása Eiríksdóttir deildarlæknir á svæfingadeild FSA leggur hér til tvær uppskriftir í matarkrókinn. Báðar eru úr smiðju Möru fóstru hennar á Ítalíu, sem Ása var hjá í fyrra þegar að hún tók sér launalaust leyfi og fór í 4 mánaða ferð um Ítalíu til að læra ítölsku og að elda ítalskan mat. Mara og Roberto maðurinn hennar reka fjallahótel í pínulitlum bæ í norður Toskana sem heitir La Baita og bærinn Corfino. „Ég var hjá þeim í nokkrar vikur og fékk að hjálpa til í eldhúsinu og skrifa niður uppskriftir í stílabók á meðan Mara hlýddi mér yfir óreglulegar ítalskar sagnir og ég drakk í mig allt sem ég gat um mat og matarmenninguna þeirra og hefðirnar frá þessu svæði. Mmmmm, yndislegur tími. Báðar eru uppskriftirnar frekar einfaldar og það ætti allt að fást í þær án vandræða í venjulegri búð. Pastarétturinn sagði Mara að væri einfaldur og fljótlegur og tilvalinn þegar lítill tími væri fyrir eldamennsku og þessa venjulegu fjögurra rétta máltíð sem var standard hjá henni bæði í hádegis- og kvöldmat, í viðlögum og miklu hallæri mætti þá sleppa aðalréttinum og bera bara fram þetta pasta því það er svo matarmikið."

Pasta Amatriciana (Pasta með tómat-beikon sósu)

200g beikon, skorið í bita.

1 msk olía

1-2 dl hvítvín

1 stór laukur, smátt skorinn

2 gulrætur, smátt skornar (má sleppa)

1 steyttur chilipipar (þurrkaður) eða 1/4 tsk chili duft

1 hvítlauskrif, smátt skorið

2 dósir tómatar, hakkaðir

400 g pasta að eigin vali.

Olía sett á vel heita pönnu og beikonið stökksteik í ca 4 mínútur. Hvítvíninu hellt yfir og soðið upp, beikonið veitt af pönnunni og geymt. Lauk, gulrót, chili og hvítlauk bætt á pönnuna og steikt við vægan hita í 4 mínútur til áður en tómötum og beikoni er bætt aftur útí og allt soðið við vægan hita í ca 15 mínútur. Bæta má við meira hvítvíni eða vatni ef þarf.

Á meðan sósan mallar er pastað soðið, svo borið fram með sósunni, nýrifnum parmesan osti og eftir smekk salti og pipar.

„Fyrsta daginn minn í Corfino, búin að ferðast sleitulast í tæpan sólahring, hjálpaði ég til við að búa til þennan eftirrétt handa stórum hóp af gestum sem kom á hótelið um leið og ég. Þegar búið var að gefa öllum að borða og við gátum slakað á gaukaði Mara að mér diski og ég settist niður úti í horninu á eldhúsinu á meðan hún og Roberta hjálparkokkur gengu frá og vöskuðu upp. Þegar ég leit upp stóðu þær og horfðu á mig og kímdu yfir þessum skrítna lækni sem var komin fleiri þúsund kílómetra að heiman út í óvissuna og sat þarna sæl og ánægð með jarðarberjatiramísú og sólskinsbros á andlitinu. Því við fyrsta bitann varð ég alveg sannfærð um að þó að ég þyrfti að fara til baka strax næsta dag og lærði aldrei neitt meira væri það alveg þess virði að ferðast alla þessa leið bara fyrir þessa einu uppskrift...."

Tiramisu con fragole (Jarðarberjatiramisu)

1/2 kg jarðarber, smátt skorin

1/2 sítróna, einungis safinn

1/2-1 dl sykur

Ananassafi

500 g mascarpone (tvær dósir, má vera íslenskur)

5 egg, rauður og hvítur aðskildar

5 msk sykur

1 pakki "Lady fingers" (fást í Hagkaup og Úrvali)

Jarðarberin, sítrónusafinn og sykurinn eru sett í skál og látin standa á bekk í ca 2 klst. Vökvinn sem myndast er síaður frá og drýgður með ananassafa. Eggjarauður og sykur hrært létt saman, eggjahvítur stífþeyttar. Mascarpone ostur hrærður mjúkur og rauðunum hrært saman við og að lokum eggjahvítunum blandað varlega saman við.

Í botninn á flötu íláti sem tekur ca 1.5-2 lítra er svo smurt ca 1/3 af mascarpone hrærunni, svo lagi af kökum sem hafa verið bleyttar vandlega í safanum, aftur mascarpone hræra, ca helmingur af jarðarberjum, næsta lag af bleyttum kökum, mascarpone hræra og að lokum hinn helmingurinn af berjunum. Best er að leyfa þessu að samlagast í nokkra klukkutíma áður en rétturinn er borinn á borð. Það er ef maður getur staðist mátið að byrja.

Ása skorar á Huldu Rafnsdóttur, deildarstjóra á slysadeild FSA, að mæta með uppskriftir að viku liðinni.

Nýjast