Óviðunandi að 20% félagsmanna séu án atvinnu

„Það er með öllu óásættanlegt að ríflega 20% félagsmanna skuli ganga um atvinnulausir nú þegar hábjargræðistíminn fer í hönd," segir í ályktun frá aðalfundi Fagfélagsins sem haldinn var í liðinni viku. Fagfélagið var stofnað í desember 2008 við samruna Trésmiðafélags Reykjavíkur og Félags byggingamanna Eyjafirði.  

Félagið hefur þungar áhyggjur af atvinnuástandi í byggingariðnaði og skorar á stjórnvöld að taka höndum saman með aðilum vinnumarkaðarins um að snúa þessari óheillaþróun við og ráðast í mannfrekar framkvæmdir eins og margsinnis hafi verið lofað. Heimir Kristinsson varaformaður félagsins og fyrrum formaður Félags byggingamanna í Eyjafirði segir að staðan norðan heiða sé sú að enn sé verið að segja upp félagsmönnum og margir sem enn starfi innan iðnaðarins séu með tímabundna ráðningarsamninga og búi því við mikla óvissu.  Varlega áætlað telur hann að atvinnuleysi meðal félagsmanna sinna sé um 20%, en bætir við að iðnaðarmenn eigi fremur auðvelt með að ganga í önnur störf og hafi margir því snúið sér að öðru nú þegar illa árar í byggingariðnaði.

Þá nefndir Heimir að töluverður hópur iðnaðarmanna úr Eyjafirði hafi leitað á önnur mið, farið til Noregs, en einnig Svíþjóðar, Danmerkur og Álandseyja svo dæmi séu tekin.  Einkum eru það menntaðir smiðir sem haldið hafa til útlanda vegna atvinnu og oftast nær séu fjölskyldurnar eftir heima, en dæmi séu líka um heilu fjölskyldurnar sem eru þessa dagana að pakka saman búslóð sinni og halda utan þar sem vinnu er að fá.

„Ég vona svo sannarlega að okkur takist að halda í horfinu, að atvinnuleysið aukist ekki frekar en orðið er, það er nú alltaf svo að verkefni detti inn yfir sumarmánuðina og ég yrði mjög svekktur ef það gengur ekki eftir í sumar líka," segir Heimir.  Hann á þó ekki von á öðru en að svipað atvinnuleysi og nú vari fram á næsta ár, fá teikn séu á lofti um betri tíð. Heimir nefnir einnig að útborguð laun iðnaðarmanna hafi lækkað um tugi prósenta frá árinu 2007, þegar fyrst varð samdráttar vart í byggingariðnaði. Þannig hafi til að mynda yfirvinna nánast engin verið um langa hríð hjá þessum hópi. 

Nýjast