Óttast slys vegna glæfraaksturs

Norðurhorn við Aðalstræti. Til að bregðast við aðgerðarleysi bæjaryfirvalda tóku íbúar sig saman og …
Norðurhorn við Aðalstræti. Til að bregðast við aðgerðarleysi bæjaryfirvalda tóku íbúar sig saman og settu tvær hindranir á gangstéttarbrúnina til að hindra ógæfulegan akstur.

Íbúar í Innbænum á Akureyri gagnrýna ósið margra ökumanna sem nota gangstétt sem akrein meðfram Aðalstræti. Ólafur Kjartansson, íbúi við Aðalstræti, segir að gangstéttin sé þétt upp að húsvegg svo að fólk sem stígur fyrir norðurhorn þessara húsa inn á gangstéttina eigi í hættu að verða undir bíl sem ekið er norður eftir gangstéttinni. Bæjaryfirvöld hafa fengið erindi um hættuna til að bregðast við, fyrst fyrir ári síðan og nú síðast í vor en ekkert hefur verið gert.

„Sem betur fer hefur ekki enn orðið alvarlegt slys vegna þessa en það er ekki spurning um hvort, heldur hvenær það gerist ef ekkert verður að gert,“ segir Ólafur. Hann segir að eftir árangurslausa beiðni um aðstoð framkvæmdasviðs Akureyrarbæjar við bráðabrigðalausn þar til eitthvað varanlegt verði ákveðið hafi íbúar tekið sig saman og sett tvær hindranir á gangstéttarbrúnina til að hindra ógæfulegan akstur. „Þetta er ekki hugsað sem endanleg lausn heldur aðgerð til að minnka slysahættuna þar til veghaldari hefur leyst úr þessu,“ segir Ólafur.

Hann telur nokkuð víst að þetta sé ekki eina svæðið þar sem þetta er að gerast. „Það eru víðar svipaðar aðstæður með blindhorn að gangstéttum, sérstaklega í eldri hverfunum. Það á ekki að bíða eftir næsta slysi til að hafist verði handa við úrbætur gegn jafn augljósri slysahættu.“

 


Athugasemdir

Nýjast