Óttast áfengisdrykkju unglinga og neyslu á „Mollý"

Foreldrar hafa áhyggjur af vímefnaneyslu unglinga.
Foreldrar hafa áhyggjur af vímefnaneyslu unglinga.

Áfengisdrykkja á meðal fyrstu bekkinga í framhaldsskólum er að aukast og meira er um eftirlitslaus bekkjarpartí en áður. Þetta segir Anna Hildur Guðmundsdóttir starfsmaður SÁÁ á Akureyri í samtali við Vikudag. Forma, félag foreldra framhaldsskólanema í Menntaskólanum á Akureyri, sendi nýlega bréf til allra foreldra og forráðarmanna nemenda skólans þar sem fram kemur að foreldrar nemenda í fyrstu og öðrum bekkjum hafa áhyggjur af áfengis- og vímefnaneyslu nemenda.

„Yfirleitt eru þetta í kringum 5-6 í hverjum fyrsta bekk í framhaldsskólum sem neyta áfengis og mér finnst að neyslan sé að verða meira áberandi,“ segir Anna Hildur. Í bréfi Forma til foreldra kemur einnig fram að þeir sem leigi út sali eða hús til samkomuhalds fyrir ólögráða nemendur beri alla ábyrgð og eigi á hættu að vera lögsóttir ef eitthvað fer úrskeiðis. Stjórnin hafi í höndunum lögfræðiálit þess efnis.

Einnig hefur stjórnin fengið upplýsingar um að unglingar séu töluvert að nota eiturlyfið „Mollý“ eða MDMA. Á meðal unglinga sé efnið álitið skaðlítið og saklaust til neyslu. Í bréfi Forma til foreldra kemur fram að mikið virðist vera á markaðnum af þessu efni, ekki minna á Akureyri en annars staðar.

-þev

Nýjast