Óþolandi hve margir kasta rýrð á framkvæmdina

Helena Þ. Karlsdóttir segir að bættar samgöngur séu forsenda búsetu og byggðaþróunar.
Helena Þ. Karlsdóttir segir að bættar samgöngur séu forsenda búsetu og byggðaþróunar.

„Ég ætla svo sannarlega að vona að Vaðlaheiðargöng verði að veruleika. Ég tel að þau skipti miklu máli fyrir okkur og ég er sannfærð um að það verður með þau eins og Héðinsfjarðargöngin að umferðin muni aukast,“ segir Helena Þ. Karlsdóttir ritari Samfylkingarinnar. „Það er óþolandi hvernig margir reyna að kasta rýrð á framkvæmd Vaðlaheiðarganga og nota þá röksemdarfærslu að nota eigi fjármagnið í annað mikilvægara og láta líta svo út að ríkið sé að setja fjármagn í framkvæmdina.”

“Það er ekki rétt. Ríkið er ekki að setja fjármagn í verkið heldur að ábyrgjast fjármögnun framkvæmdarinnar. Samöngubætur hérna á svæðinu gagnast ekki bara okkur sem hérna búum, þær gagnast landsmönnum öllum,“ segir Helena. Hún segir það hafa valdið sér vonbrigðum hversu áhugalítill núverandi samgönguráðherra sé um framkvæmdir við Vaðlaheiðagöng og framkvæmdir á landbyggðinni yfirhöfuð. „Ég ætla rétt að vona að ekki verði brugðið fæti fyrir þessa nauðsynlegu framkvæmd en hún mun hafa jákvæða innspýtingu fyrir atvinnulífið í för með sér og alla þjónustu á svæðinu,“ segir Helena.

Bættar samgöngur séu forsenda búsetu og byggðaþróunar og segir hún að mikilvægt sé að halda áfram að efla innviði dreifðra byggða með samgöngubótum sem stytti leiðir og sameini svæði. Sjálf sé hún áhugasöm um samgöngumál og hlynnt jarðgangagerð, hún fagni því tilkomu Héðinsfjarðarganga sem skipt hafi mikil máli fyrir íbúa í Fjallabyggð og raunar í Eyjafirði öllum. „Möguleikar í ferðaþjónustu hafa aukist mikið og fjöldinn sem farið hefur í gegnum Héðinsfjarðargöng er meiri en við var búist var við. Göngin sönnuðu einnig gildi sitt síðastliðinn vetur sem varaleið þegar Öxnadalsheiði lokaðist, en það hafði ég ekki séð fyrir,“ segir Helena.  Hún nefnir að einnig þurfi að huga að nýjum Ólafsfjarðargöngum, enda séu þau barn síns tíma.

Alcoa hefur hætt við áform um uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík og segir Helena það viss vonbrigði, enda hafi Norðlendingar bundið vonir við verkefnið. „Úr því að þetta var afstaða fyrirtækisins þá var eins gott að fá hana fyrr en seinna því það opnar möguleika fyrir aðra sem vilja skoða hvaða tækifæri svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir hún. Fleiri aðilar séu að skoða hvaða möguleikar séu í boði og eftir því sem best sé vitað eigi Landsvirkjun í viðræðum við nokkra áhugasama orkukaupendur. „Í mínum huga er mikilvægast að atvinnuuppbygging eigi sér stað á svæðinu sem skapar störf. Það þarf að skoða hvaða framkvæmdir eru raunhæfar með tilliti til orkuöflunar og hvort sé betra að einn stór aðili komi að atvinnuuppbygginunni eða fleiri smærri,“ segir Helena.

 

Nýjast