20. febrúar, 2007 - 11:15
Fréttir
Það eru ekki margir dagar sem setja jafn sterkan svip á bæjarlífið á Akureyri og öskudagurinn. Búningaklædd börn flykkjast í verslanir, fyrirtæki og stofnanir og skemmtilegir, oft nýstárlegir, söngvar óma allan daginn. Þessi þýsk-danski siður sem Íslendingar hafa haldið til haga allt frá 19. öld, þegar þéttbýli fór að myndast á landinu, hefur varðveist hvað best hér á Akureyri. Það má glögglega sjá í ljósmyndasafni Minjasafnsins á Akureyri en þar eru varðveittar margar myndir frá öskudeginum á Akureyri í gegnum tíðina. Í tilefni útlitsbreytinga á rótgróinni heimasíðu Minjasafnins
http://www.akmus.is/, sem tekin var í notkun núna kl. 10 í morgun, var öskudagsmyndasýning opnuð á sama tíma. Þar má finna 55 myndir frá byrjun 20. aldar til 1995. Þarna gefst fólki kostur á að rýna í skemmtilegar myndir. Ert þú á mynd, vinir þínir eða ættingjar? Á heimasíðunni verður einnig að finna fróðleiksmola um öskudaginn og þá siði sem tíðkast hafa á þessum skemmtilega degi. Svör við spurningum eins og þessum má auðveldlega finna á heimasíðunni: Af hverju hengdu karlar steinvölupoka á konurnar? Af hverju hengdu konurnar öskupoka á karlana? Er þetta íslenskur siður? Starfsfólk Minjasafnsins hvetur þá sem luma á góðri sögu um öskudaginn á Akureyri eða í Eyjafirði, eða vilja gjarnan deila upplifun sinni með fleirum, að senda tölvupóst eða bréf til safnins til að nýta í fræðslu um þennan stórskemmtilega dag.