Óska eftir styrk vegna kvikmyndaverkefna

SinfóníaNord er ein fárra hljómsveita í heiminum sem hefur möguleika á að taka upp tónlist fyrir afþ…
SinfóníaNord er ein fárra hljómsveita í heiminum sem hefur möguleika á að taka upp tónlist fyrir afþreyingariðnaðinn í heimsfaraldrinum.

Fulltrúar Menningarfélags Akureyrar hafa sent erindi til bæjaryfirvalda þar sem óskað er eftir að Akureyrarbær styðji við upptökur á sinfónískri tónlist fyrir alþjóðlegan afþreyingariðnað. Óskað er eftir því að bærinn styrki verkefnið með 3 milljóna króna framlagi á árinu 2020.

Segir í bréfi til bæjarins að undanfarna daga hafi farið fram upptökur í Hofi á sinfónískri tónlist fyrir þrjár kvikmyndir sem framleiddar eru fyrir alþjóðleg stórfyrirtæki í afþreyingariðnaðinum. Þessar kvikmyndir skarta stórstjörnum úr kvikmyndaiðnaðinum á borð við Will Ferrel, Charlize Theron og Ralph Fiennes. Kvikmyndatónlistin er eftir þrjú tónskáld og er Atli Örvarsson eitt þeirra.  

„Í dag lítur út fyrir að SinfóníaNord sé ein fárra hljómsveita í heiminum sem hefur möguleika á að taka upp tónlist af þessu tagi vegna Covid19 og því gríðarlega mikilvægt að nota tækifærið sem skapast hefur á þessum markaði til að koma hljómsveitinni almennilega á framfæri. Til þess að brjótast inn á þennan markað hefur þurft að bjóða góð verð sem eru samkeppnishæf við erlendan markað. Launakostnaður hér á landi er til dæmis töluvert dýrari en í austur Evrópu en á móti kemur að hér hefur okkur tekist að byggja upp traust viðskiptavina vegna þess að þjónustan sem SN veitir er í hæsta gæðaflokki,“ segir í bréfinu.

Þá segir ennfremur að einn stærsti gjaldaliður verkefnisins sé ferðakostnaður hljóðfæraleikara en þar sem verkefnið er staðsett fjarri höfuðborginni þurfi reglulega að sækja sérhæfða hljóðfæraleikara til þátttöku í upptökum sem búsettir eru utan svæðisins. Afar mikilvægt sé að koma til móts við þennan ferðakostnað til að halda verkefninu á Akureyri.

„Ef ekki er komið til móts við þann aukakostnað sem hlýst af legu verkefnisins er raunveruleg hætta á að verkefnin flytjist suður. Ef vel tekst til með verkefnið sjáum við fram á að fleiri hljóðfæraleikarar, upptökustjórar og hljómsveitarstjórar sjái sér hag í að setjast að á Akureyri sem styrkir ímynd Akureyrar sem atvinnuskapandi vettvang fyrir háskólamenntað fólk og laðar að sérhæfða starfskrafta til búsetu á svæðinu,“ segir í bréfinu.
Stjórn Akureyrarstofu samþykkir að vísa erindinu til aukaúthlutunar úr Menningarsjóði sem fyrirhugað er að fara í síðar á árinu.


Athugasemdir

Nýjast