Ragnheiður Runólfsdóttir, yfirþjálfari hjá Sundfélaginu Óðni á Akureyri, er ósátt við þá ákvörðun íþróttaráðs að heimila ekki lokun Sundlaugar Akureyrar á meðan AMÍ mótið fer fram dagana 25.-28. júní nk. Sundfélagið óskaði eftir því að laugin yrði lokuð almenningi alla fjóra keppnisdagana en íþróttaráð gat ekki orðið við erindinu. Búist er við um 3-400 keppendum á mótið, auk foreldra og annarra aðstandenda.
Þetta er eitt fjölmennasta sundmót sem haldið er á landinu ár hvert. Ég skil það vel að fólk vilji komast í laugina, en við erum að tala um 3-4 daga á árinu sem við hefðum sundlaugina fyrir okkur til að halda mótið og það eru aðrar sundlaugar hér í kring. Svona móti fylgir mikill fjöldi, bæði í lauginni og eins í búningsklefanum. Þar er viðbúið að verði öngþveiti og mér finnst þetta mjög slæmt, segir Ragnheiður, en nánar er rætt við hana í prentútgáfu Vikudags.
-þev