Ósátt við að aldraðir fái ekki sjúkraþjálfun í hvíldarinnlögn

Öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri.
Öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri.

Guðný Bergvinsdóttir hjúkrunarfræðingur á Akureyri er ósátt við að 75 ára gömul móðir hennar sem er veik og bundin við hjólastól eigi ekki rétt á sjúkraþjálfun í hvíldarinnlögn á Öldrunarheimilinu Hlíð.

Móðir Guðnýjar hefur farið þrisvar í viku part úr degi á Hlíð og notið allrar þeirra þjónustu sem þar er í boði, þar á meðal sjúkraþjálfun einu sinni í viku. Það sé hins hins vegar ekki í boði í hvíldarinnlögn.

„Ég er afar ósátt við að móðir mín skuli ekki njóta þjónustu sjúkraþjálfara sem hún nýtur þegar að hún er í dag­ þjálfun,“ segir Guðný í samtali við Vikudag. „Móðir mín er með langvinnan sjúkdóm sem hefur leikið hana grátt, er bundin í hjólastól og þarfnast að­ stoðar við daglegar athafnir. Hún á rétt á þjónustu sem miðast við ástand hennar á hverjum tíma. Sjúkraþjálfunin hefur miðað að því að lina verki og viðhalda  hreyfifærni hennar. En sú þjónusta er hins vegar ekki veitt þegar um tímabundna innlögn er að ræða sem í hennar tilfelli eru um 4 vikur í senn,“ segir Guðný. 

Að sögn sjúkraþjálfara sem rætt var við staðfestir hann að það megi ekki sinna fólki í hvíldarinnlögn og segir að einstaklingurinn geti jafnvel verið verr á sig kominn eftir hvíldarinnlögnina fái hann ekki sjúkraþjálfun. Til að fá sjúkraþjálfun þarf fólk sem býr utan Öldrunarheimilanna að fá beiðni hjá sínum lækni.  Greiða þarf fyrir hluta af meðferðinni á móti Sjúkratryggingum Íslands. „Þetta dugar ekki til þegar um tímabundna dvöl er um að ræða. Við erum búin að láta á það reyna,“ segir Guðný.

Á heimsíðu ÖA segir að tímabundin dvöl sé hugsuð sem eitt af úrræðum til þess að fólk geti dvalið sem lengst heima, en í dvölinni geti fólk byggt sig upp og ættingjar hvílst.  „Þetta eru umhugsunarverð og falleg orð en það er ekki nóg ef einstaklingurinn fær ekki þá einstaklingsmiðuðu þjónustu sem Hlíð hefur upp á að bjóða,“ segir Guðný og kallar eftir breytingum. „Bæði fyrir móður mína og aðra sem eru í hennar sporum því þeir eru mun fleiri. Ég tek skýrt fram að ég er ánægð með flest það sem gert er á Hlíð og þakka sannarlega fyrir það. En það breytir því ekki að það eru vankantar sem mjög brýnt er að laga.“   

Segir um kerfislægan vanda að ræða

Halldór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, segir spurður um málið að hjá ÖA séu tímabundnar dvalir og fær stofnunin greitt fyrir það eins og venjuleg hjúkrunarrými. Hins vegar hafi ekki fengist viðurkennd endurhæfingarrými og þess vegna sé minni þjónusta í hvíldarrýmum.

„Þessi staða er ekki góð, eða eins og maður myndi vilja sjá,“ segir Halldór. „Það hefur ítrekað verið bent á það við viðeigandi yfirvöld að þessi skerðing sé ekki í anda sjálfræðis né í takti við það sem er gert t.d. í Danmörku. Þetta er eitt af fleiri svæðum sem skapa notendum og okkur ákveðna erfiðleika í að aðlaga þjónustu að þörfum fólks og myndi líklegast kallast kerfislægur vandi, sem takmarkaður áhugi virðist til að taka á þrátt fyrir ábendingar,“ segir Halldór. 

Nýjast