Öruggur sigur Þórs/KA í kvöld en tap hjá KA

Þór/KA vann öruggan sigur á HK/Víkingi í 12. umferð Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu er liðin áttust við á Akureyrarvelli í kvöld. Þrjú mörk voru skoruð í leiknum og voru þau öll heimastúlkna. Það gekk ekki eins vel hjá KA- mönnum á útivelli gegn Selfossi í 1. deild karla á Íslandsmótinu í knattspyrnu í kvöld en lokatölur á Selfossvelli urðu 2-1 sigur Selfoss. Andri Fannar Stefánsson skoraði mark KA í leiknum.

Í leik Þórs/KA og HK/Víkings voru heimastúlkur mun sterkari aðilinn í leiknum og stjórnuðu leiknum nánast frá upphafi. Fyrsta mark leiksins kom á 24. mínútu og það var hin slóvenska, Mateja Zver, sem það gerði eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörn gestanna og afgreitt boltann örugglega í netið. Fjórum mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Rakel Hönnudóttir við öðru marki fyrir heimastúlkur þegar hún skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Staðan í hálfleik 2-0 Þór/KA í vil.

Seinni hálfleikur var líkt og sá fyrri, eign heimastúlkna og gestirnir komust lítt áleiðis í leiknum gegn sterku liði Þórs/KA. Rakel Hönnudóttir gerði endanlega út um vonir HK/Víkings í leiknum á 69. mínútu þegar hún skoraði þriðja mark Þórs/KA í leiknum og annað mark sitt, eftir sendingu frá Mateju Zver sem var kominn ein í gegnum vörn gestanna en var óeigingjörn og lagði boltann út á Rakel sem skoraði auðveldlega og tryggði Þórs/KA stúlkum 3-0 sigur á HK/Víkingi í kvöld.

Eftir leikinn hafa Þórs/KA stúlkur 16 stig og sitja í sjötta sæti deildarinnar. 

Nýjast