Ekkert verður úr því að ný stólalyfta opni í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar í vetur eins og til stóð. Vegna ágreinings verktakans G. Hjálmarssonar og Vina Hlíðarfjalls, félagsins sem stendur að uppsetningu lyftunnar, frestast opnunin um eitt ár.
Þetta staðfestir Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli í samtali við Vikudag.
„Það er búið að taka ákvörðun um að salta þetta fram á næsta sumar þar sem ekki tókst að leysa ágreininginn á milli verktakans og þeirra sem standa að uppsetningunni,“ segir Guðmundur Karl. „En ég reikna með því að lyftan verði komin í gagnið veturinn 2020.“
Geir Gíslason, formaður Vina Hlíðarfjalls, sagði í frétt Rúv um málið í sumar að samkomulag hafi verið gert við verktakann um hvernig staðið skyldi að framkvæmdum í fjallinu en upp hafði komið ákveðinn meiningarmunur um hvernig vinna skuli samkvæmt samkomulaginu og var verkið að mati verkkaupa komið talsvert framúr því sem um var samið.
Vinir Hlíðarfjalls gerðu samning við Akureyrarbæ um kaup og uppsetningu á lyftunni. Áætlað er að stólalyftan og framkvæmdin sjálf kosti 363 milljónir. Nýja lyftan er 1.238 m og er áætlaður ferðatími í lyftunni 8,5 mínútur. Samanborið er Fjarkinn stólalyftan 1.050 m og ferðatími 6,5 mín. Lyftan verður staðsett sunnan við Fjarkann.