Opnað í Vaglaskógi
Tjald- og fastleigusvæði í Vaglaskógi voru opnuð fyrir helgi. „Skógurinn kemur mjög vel undan vetri enda var hann óvenju snjóléttur,” segir Rúnar Ísleifsson skógarvörður hjá Skógræktinni Vöglum í Fnjóskadal en óvenju lítið sé af brotnum trjám eftir veturinn.
Hann segir að síðasta sumar hafi komið ágætlega út, gróðursetningar og grisjun skóglenda var óvenju mikil, ”en aftur móti var léleg aðsókn á tjaldsvæðunum enda tíðarfar ekkert sérstakt.”
Til stendur í sumar að auka enn á gróðursetningar og segir Rúnar það einkum vera í gegnum hin ýmsu samstarfsverkefni. Fastleigustæði fyrir hjólhýsi í sunnanverðum Vagaskógi eru mjög vinsæl og eru öll stæði fullbókuð fyrir sumarið og eftirspurn eftir stæðum mikil.