Opið í Hlíðarfjalli um helgina

Opið verður í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar um hvítasunnuhelgina. Nægur snjór er í brekkunum við Fjarkann og uppi í Strompi. Þar verða báðar lyftur opnar frá föstudegi til mánudags á milli kl. 8 og 14.

Guðmundur Karl Jónsson, forstöðumaður Hlíðarfjalls, segist hafa fagnað kuldakasti síðustu daga sem geri það að verkum að lítil bráðnun hafi orðið og mönnum hafi tekist að safna snjó í brekkurnar. „Flestum skíðasvæðum heims hefur nú þegar verið lokað og það er frábært að geta boðið upp á opnar lyftur og gott skíðafæri svona langt fram á vorið, en það gerðist síðast vorið 2002 að við gátum haft opið þessa helgi," sagði Guðmundur Karl nú í morgun.
Skíðaárið 2006-2007 hefur verið mjög gott. Alls var opið í 139 daga og voru gestir fjallsins ríflega 49 þúsund. Þá voru alls 419 þúsund ferðir farnar niður fjallið og því má segja að gestir Hlíðarfjalls hafi lagt 828 þúsund kílómetra að baki. Til gamans má geta að það eru u.þ.b. 400 þúsund km til tunglsins og hafa skíðaiðkendur Hlíðarfjalls því farið tæplega fjórðung þeirrar vegalengdar í vetur.

Nýjast