Opið bréf til Akureyringa

Vilhjálmur B. Bragason skrifar

Það vita allir sem eitt sinn hafa komið til Akureyrar að hið fallega bæjarstæði er hin mesta prýði bæjarins. Ef horft er á bæinn úr Vaðlaheiði má rekja sögu bæjarins meðfram strandlengjunni, en hún er ekki síst fólgin í þeim töfrum sem hin fallegu gömlu timbur- og bárujárnshús setja á þessa einstöku bæjarmynd. Þessu eru ráðamenn á Akureyri alltof gjarnir, og það liggur við að maður segi viljugir, til þess að gleyma. Þar virðist vinnubrögðum þannig háttað að einfaldast sé að semja deiliskipulög án þess að taka tillit til þátta á borð við sögu og ímyndar bæjarins eða hvaða áhrif þau gætu hugsanlega haft á heildarmyndina.

Nú liggur fyrir hjá Akureyrarbæ deiliskipulag sem gerir ráð fyrir blandaðri byggð fyrir framan mörg af elstu og glæsilegustu húsum bæjarins við Hafnarstræti. Þessar nýju byggingar koma til með að skyggja á þessi gömlu og glæstu hús og stela þeim ómetanlega sessi sem þau hafa átt í bæjarmynd Akureyrar um áratuga skeið. Úr þeim skaða verður hvorki breytt eða bætt þegar hann er skeður.  Í umræddum tillögum að deiliskipulagi er mikið talað um að viðhalda götumynd Hafnarstrætis, en þau spjöll sem þetta vinnur á sögulegri bæjarmynd Akureyrar eru látin sem vind um eyru þjóta.

Það sem dæmir þessar tillögur óréttmætar öðru fremur er sú staðreynd að það mat sem lauslega er stuðst við á gildi húsanna sem skyggt verður á, var unnið árið 1979. Það eitt og sér að það sé látið viðgangast segir manni hversu lítil virðing er borin fyrir sögu og ímynd bæjarins á meðal yfirvalda.

Í þessum tillögum að deiliskipulagi er einnig talað um að þessar nýbyggingar eigi að vera í samhengi við eldri byggð á svæðinu, hvort sem þær séu í eldri eða nútímalegum byggingarstíl. Það er augljós þversögn fólgin í því að fara fram á að samhengis sé gætt á sama tíma og byggingarstíll er gefinn algjörlega frjáls. Því miður gefa margar fyrri skipulagsákvarðanir bæjaryfirvalda ekki tilefni til mikils trausts í þeirra garð og í raun ætti ekki að leggja jafn afdrifaríkt deiliskipulag, upp á ímynd bæjarins að gera, fyrir nema teikningar af öllum þeim húsum sem eiga rísa lægju fyrir. Þá virðingu eru bæjaryfirvöld ekki tilbúin að sýna íbúm bæjarins.

Þá kann maður einnig að spyrja sig hvað gera eigi við öll þau bílastæði sem nú eru á þessum fyrirhugaða byggingarreit, sér í lagi þegar haft er í huga að annað deiliskipulag gerir ráð fyrir fækkun bílastæða í miðbænum sjálfum. Þessi stæði er vel nýtt af fólki sem sækir vinnu í miðbæinn, svo ekki sé minnst á sumarið eða aðra stórviðburði í bænum þegar færri komast að en vilja. Það er því ljóst að þetta er hrein og klár atlaga að miðbæ Akureyrar, sem stendur nú þegar völtum fótum eftir að hörmungar á borð við Glerártorg hafa nú þegar nánast gert út af við hann.  Og það má vel vera að yfirvöld hyggist leysa þetta bílastæðamál með niðurgröfnum bílakjöllurum, en það hlýtur hver maður að sjá hversu góð og framsýn hugmynd það er að hafa niðurgrafna bílakjallara á uppfyllingu niður við sjó, ekki síst í ljósi þess að sjávaryfirborð mun fara hækkandi eftir því sem líður á öldina. 

Nú er það ekki svo að Akureyrarbær sé svo rúinn af plássi að það hafi komið á daginn að þetta sé eini óbyggði bletturinn í öllu bæjarfélaginu. Og sennilega er það ekki eftirspurn sem ræður þessum tillögum, þar sem húsnæði er auðkeypt nú þegar í mið og innbæ Akureyrar. Staðreyndin er sú að það er engin þörf á að þétta  byggðina á þessum slóðum og það er engin raunveruleg þörf eða eftirspurn sem ræður þessum tillögum. Þá sér það hver heilvita maður að það að bæta við þriðja hundrað herbergja hótelinu í þennan bæ er hreint og klárt glapræði.

Þessi reitur á að fá að halda sér að óbyggður og væri bæjaryfirvöldum nær að gera aðstöðu betri við umferðarmiðstöðina, svo að þessi stóri og fallegi bær státi þá í það minnsta af umferðarmiðstöð í miðbænum, sem er eitthvað annað en núverandi hugmyndir gera ráð fyrir.

Sem stoltur íbúi Akureyrarbæjar skora ég á bæjarbúa sem og alla unnendur Akureyrar að mótmæla þessum tillögum. Það er hægt að gera með því að ská nafn sitt í undirskriftasöfnun sem fer fram rafrænt á slóðinni: http://www.ipetitions.com/petition/deiliskipulag-vidhafnarstraeti  eða með því að senda athugasemdir beint til bæjarins.

Höfundur er íbúi á Akureyri.

 

Nýjast