Stapi lífeyrissjóður varð vissulega fyrir þungu höggi í kjölfar bankahrunsins, rétt eins og aðrir lífeyrissjóðir í landinu. Staða sjóðsins er engu að síður nokkuð sterk og við erum óðum að jafna okkur eftir hrunið þótt vissulega sé á brattann að sækja. Það er ekki svo að lífeyrissjóðirnir hafi þurrkast upp, því fer víðs fjarri, segir Kári Arnór Kárason framkvæmdastjóri Stapa. Stjórn Stapa hefur haldið nokkra fundi á starfssvæði sjóðsins undanfarna daga, sá síðasti var á Akureyri í gærkvöld. Tilefni fundanna er nýleg skýrsla um úttekt á fjárfestingarstefnu, ákvarðanatöku og lagalegu umhverfi lífeyrissjóðanna í aðdraganda bankahrunsins 2008.
Í skýrslunni er ekki dregin upp rétt mynd af því hvernig lífeyrissjóðirnir komu út úr hruninu, of mikil áhersla er lögð á hvað fór aflaga. Að sjálfsögðu á að ræða þau atriði í þaula, en á sama hátt er eðlilegt að benda á hvað vel var gert. Ávöxtunin hefur ekki verið nógu góð til að standa að fullu undir lífeyrisréttindum framtíðarinnar, enda ytri aðstæður um margt óhagstæðar. Ég bendi á að lífeyrir hefur hækkað um nærri 30 % frá hruni, sem er meiri hækkun en hjá þorra launþega. Kári segir að öll starfsemi sjóðsins hafi verið endurskoðuð, nú sé eingöngu horft til áhættuþols sjóðsins varðandi fjárfestingar, ekki til annarra lífeyrissjóða eða fjárfesta. Starfsfólki verði fjölgað á næstunni, þannig að starfsemin verði sem öruggust.
Nauðsynlegt að fylgjast með réttindum
Björn Snæbjörnsson formaður Einingar-Iðju er í stjórn Stapa. Hann hvetur fólk til að fylgjast vel með sínum réttindum. Lífeyrissjóðirnir eru ekkert annað en sameiginleg eign þeirra sem greiða í viðkomandi sjóð. Staða Stapa verður að teljast þokkalega góð miðað við aðstæður. Ég bendi til dæmis á að fjárhagslegar eignir jukust í sjóðum hrunárið mikla. Sum eignasöfn skiluðu okkur arði, þótt önnur söfn hafi tapað miklu. Stapi stendur því ágætlega, sem betur fer. Ég hvet fólk til að fylgjast með sínum réttindum.