„Öll hreyfing af hinu góða“

„Það er gott að njóta útivistar meðfram æfingum inni,“ segir Guðrún Gísladóttir.
„Það er gott að njóta útivistar meðfram æfingum inni,“ segir Guðrún Gísladóttir.

„Þetta er eðlilega mjög skrýtið, enda skrýtnir tímar sem hafa verið og verða næstu vikurnar. Mikið af fólki hefur þennan fasta punkt í tilverunni að koma og æfa hjá okkur og maður finnur að mörgu fólki finnst þetta erfitt,“ segir Guðrún Gísladóttir stöðvarstjóri hjá World Class Akureyri og einkaþjálfari til margra ára.

Eins og flestum er kunnugt eru líkamsræktarstöðvar landsins lokaðar vegna samkomubannsins. Guðrún brá á það ráð að senda út æfingaprógrömm sem hægt er að gera heima meðan á samkomubanninu stendur.

„Ég er umkringd fólki allan daginn í vinnunni, fylgist með fólki æfa og kenni sjálf eins og síðustu 28 ár. Nú er ég með sex tíma í viku, fjölbreytta tíma fyrir mjög fjölbreyttan hóp af viðskiptavinum. Ég er í draumastarfinu þegar kemur að því að hvetja fólk áfram í hreyfingu og sjá fólk eflast og styrkjast. Ég þurfti því ekki að hugsa mig lengi um að setja saman æfingadaga af og til í samkomubanninu og hef sent út alla dagana eftir að við lokuðum nema einn. Ég veit að margir eru að því í dag en fyrir mig snýst þetta um það að ef einn af mínum kúnnum tekur þátt þá er ég ánægð. Þá er ég a.m.k. að hjálpa einum. Ég hef þó verið að fá skemmtileg skilaboð og þakkarpósta eftir að ég byrjaði. Fólk er að æfa á Spáni, í Hafnarfirði og svo mikið af mínum fastakúnnum. Kannski einhverjir fleiri, hver veit,“ segir Guðrún.

Gera allar æfingar, ekki bara það skemmtilegasta

Hún setur æfingu dagsins á Face booksíðuna sína sem tengist líkamsræktinni og þar getur fólk séð hver æfing dagsins er. „Best að taka það fram hér að það þarf að gera allar æfingarnar, ekki bara velja þær skemmtilegustu,“ segir Guðrún. Hún segir brýnt að halda áfram að hreyfa sig og fólk megi ekki missa dampinn.

„Það er mjög mikilvægt að æfa sig á þessum tímum og öll hreyfing af hinu góða, bara komast út að ganga er dásamlegt. Hjóla, gönguskíði eða þessi æfingaplön – allt er gott og maður þarf að passa að vera ánægður með allt sem maður gerir. 30-60 mínútna hreyfing á dag hjálpar okkur mikið. Það er vel hægt að halda í formið með því að fylgja æfingunum eftir þó að ekki séu til öll tæki og tól á heimilinu. Það er bara eigin þyngd notuð. Áður en við vitum af verðum við komin í World Class aftur, full þakklætis yfir því hversu fjölbreytta flóru af líkamsrækt er hægt að stunda þar,“ segir Guðrún Gísladóttir.

Að planka er góð æfing sem hægt er að gerast nánast hvar sem er

 

Við fengum Guðrúnu til að bjóða lesendum upp á æfingaplan fyrir tvo daga. Nú er bara um að gera að reima á sig skóna og taka á því! Góða skemmtun og gangi þér vel!

Æfing dagsins 1:

Upphitun/þolæfingar: (úti eða inni)

Klifur (byrja í plankastöðu) (40x)

Jumping squats, hnébeygjuhopp (20x) EÐA hnébeygja

Jumping jacks, hoppa sundur/saman (20x) EÐA ganga sundur/saman

Afturstig (stíga með hæ/vinstri fót aftur í framstigsstöðu/lunge) EÐA lunge jump (20x)

4 hringir af þolæfingunum

Ef endurtekningar eru of margar þá má að sjálfsögðu gera færri.

STYRKTARÆFINGAR, ÞRÍHÖFÐI/AXLIR

Þríhöfða armbeygjur 3x15

Axlaflug með eða án lóða 3x15

Þríhöfðalyftur með eða án lóða. Lóð eða annað fyrir ofan höfuð og beygja hendur niður/olnbogar visa beint fram 3x20

Áskorun

2 mín. armbeygjur-Telja hversu margar þið gerið og skrá

1 mín. burpees-Telja hversu margar þið gerið og skrá

3X2 mín. planki

Slökun í 5. mín.

Góðar alhliða teygjur-Halda hverri teygju í a.m.k. 20. Sek.

Æfing dagsins 2:

Ganga/skokk

15-20 min.

Þrekhringur: Fjölbreyttar æfingar. Allar teknar í 1 min - 2-3 hringir.

Tvíhöfði, lóð eða teygja

Þríhöfðaarmbeygjur

Bakæfing, liggja á maga – lyfta búk og fótum frá gólfi

Thruster (hnébeygja, axlapressa)

Framstig (hægri/vinstri)

Jumping jacks eða ganga sundur saman

Kviðæfingar

Fótlyftur ( á fjórum fótum), rassæfing hæ/vi

Hliðarplanki, skákviður – lyfta mjöðmum hæ/vi

Axlaflug

Kálfar

Klifur

Áskorun:

Armbeygjur í 2 min – telja og skrá hvað margar.

Burpees í 1 min – telja og skrá hvað margar

3x2 min planki

Hvíld og góðar teygjur skipta miklu máii – hlusta á fallega tónlist og slaka í 10 min.

Góða skemmtun og gangi þér vel!

 

 


Nýjast