Ólafur Árnason, elsti íbúi Akureyrar, látinn

Ólafur Árnason, sem var elsti íbúi Akureyrar, lést á heimili sínu um helgina á 103. aldursári. Ólafur fæddist á Húsavík 24. október 1904 en hann var Þingeyingur að ætt, frá Kvíslarhóli á Tjörnesi. Hann átti 12 systkini og var sjálfur í miðjum hópi. Vikudagur heimsótti Ólaf í síðustu viku, er hann, sem elsti íbúi bæjarins og elsti áskrifandi Vikudags, opnaði nýja heimasíðu blaðsins, vikudagur.is. Ólafur var mjólkurfræðingur og starfaði lengst af hjá Mjólkursamlagi KEA. Hann bjó einn alla tíð, var ógiftur og barnlaus. Ólafur starfaði á sínum yngri árum sem vinnumaður við landbúnað á Tjörnesi, í Aðaldal, í Kelduhverfi og í Mývatnssveit. Hann fór úr Mývatnssveitinni í búfræðinám á Hólum í Hjaltadal en kom að því loknu til Akureyrar og fór að vinna í Mjólkursamlagi KEA árið 1935.

Hann fór og lærði mjólkurfræði í Danmörku en kom svo aftur til KEA og vann í Mjólkursamlaginu á tveimur stöðum í Gilinu og svo í núverandi húsnæði Norðurmjólkur við Súluveg. Hann hætti í föstu starfi hjá KEA eftir 40 ár en vann þó við sumarafleysingar til ársins 1982. Þá stundaði hann rjúpna- og laxveiðar fram til árins 1985 en hefur haft hægt um sig frá þeim tíma. Ólafur var mikill áhugamaður um ensku knattspyrnuna, fylgdist vel með henni til hinstu stundar og var mikill stuðningsmaður Liverpool.

Vikudagur sendir aðstandendum Ólafs innilegar samúðarkveðjur vegna andláts hans.

Nýjast