Ökumenn í símanum sektaðir á staðnum
Ökumenn á Akureyri og nágrenni ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir taka upp símann í miðjum akstri, þar sem lögreglan á Norðurlandi eystra hefur ákveðið að fara í átak gegn lögbrotum af þessu tagi. Hefst það formlega 9. mars. Þeir sem verða staðnir að brotum verða sektaðir á staðnum og ekki boðið upp á áminningar. Sama gildir um það ef menn nota ekki öryggisbelti eins og lög kveða á um.
Á fésbókarsíðu lögreglunnar kemur fram að fólk sé í auknum mæli að nota farsíma við akstur án þess að nota handfrjálsan búnað. Lögreglan skorar á samborgara sína að taka þetta til greina og nota aurana sína í annað og skemmtilegra en sektargreiðslur.