Ökukennari skammar Akureyringa fyrir framúrakstur

Jónas Þór segir þetta ekki vera góða umferðarmenningu og hafi mjög slæm áhrif á nemendur. Mynd/Þröst…
Jónas Þór segir þetta ekki vera góða umferðarmenningu og hafi mjög slæm áhrif á nemendur. Mynd/Þröstur Ernir

Jónas Þór Karlsson, ökukennari á Akureyri, segir alltof algengt að tekið sé glannlega framúr innanbæjar og biðlar til ökumanna að fara gætilega. Jónas skrifar um málið á Facebook og segir að nú sé mál að linni.

„Nú er kominn tími á að menn fari aðeins að slaka á í umferðinni! Ég og nemarnir mínir eru mjög oft að lenda í því að tekið sé glannalega framúr okkur innanbæjar hér á Akureyri. Vil ég minna á að hámarkshraði innanbæjar er 50 km á klst. nema annað sé tekið fram. Í flestum íbúahverfum er hámarkshraðinn 30 km á klst. Framúraksturinn á sér stað þótt við séum að aka á hámarkshraða og skiptir engu hvort um sé að ræða ökukennslu á venjulegum bíl eða til aukinna ökuréttinda."

Nemendur verða oft skelkaðir

Jónas segir þetta ekki vera góða umferðarmenningu og hafi mjög slæm áhrif á nemendur.

„Þeir verða oft skelkaðir (skiljanlega miðað við aksturslag sumra) við þennan glæfraakstur. Dæmi eru um að fólk hafi farið á beygjuakreinar til að taka framúr en einnig látið umferð sem kemur á móti þurft að víkja. því miður hefur þetta verið mjög slæmt þessa vikuna og duga fingur beggja handa ekki til þess að telja tilfellin og hefur oft legið við slysi.

Ef ökumönnum liggur svo lífið á að þeir telja sig þurfa að aka svona glæfralega er alveg spurning hvort þeir þurfi ekki aðeins að fara að skoða sín mál. Farið varlega í umferðinni og munið að það eru fleiri en þið þarna úti," skrifar Jónas.


Nýjast