Stefnuskrá Sjálfstæðismanna fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor verður kynnt undir slagorðinu Okkar Akureyri en að vinnu við stefnuskrána hafa komið á þriðja hundrað manns. Við Akureyringar höfum öll skoðanir á því sem betur má fara á einn eða annan hátt í bæjarfélaginu. Okkur Sjálfstæðismönnum finnst mikilvægt að hlusta á raddir bæjarbúa. Við undirbúninginn höfum við lagt mikla áherslu á að hitta sem flesta og gefið öllum kost á því sem áhuga hafa haft, að hitta okkur og koma málum sínum á framfæri.
Gefandi vinna
Vinna síðustu mánaða hefur verið einstaklega gefandi og skemmtileg. Við höfum fengið til okkar í rýnihópa yfir hundrað og fimmtíu manns sem tengjast starfsemi og þjónustu bæjarins á einhvern hátt. Á vinnufundi sem opinn var öllum bæjarbúum var unnið að því að forgangsraða verkefnum auk þess sem margar nýjar hugmyndir komu fram. Greinilegur vilji er hjá mörgum að gera bæinn okkar enn betri.
Við frambjóðendur höfum síðustu vikur gengið um öll hverfi bæjarins. Höfum hitt fulltrúa í hverfisnefndum og íbúa til þess að fá fram hvað betur má fara í nærumhverfi hvers og eins. Þetta eru vinnubrögð sem gáfust okkur vel og við höfum áhuga á að viðhalda eftir kosningar.
Fjölskyldan í fyrirrúmi
Síðustu daga höfum við verið að vinna með málaflokka er tengjast velferðar- og fjölskyldumálum. Má þar nefna heilsugæslustöðina en hana viljum við efla í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið. Við viljum tryggja öllum bæjarbúum góða þjónustu þar sem biðtími er stuttur. Efla þarf sálfræðiþjónustu og standa vörð um börn í erfiðum aðstæðum.
Annað stórt mál eru húsnæðismálin. Leigumarkaðurinn er erfiður, einkum fyrir ungt fólk sem er að stofna heimili því skortur er á litlu húsnæði til kaups eða leigu. Þetta er brýnt málefni sem við leggjum áherslu á að leysa.
Við þurfum að standa vörð um skólabæinn okkar. Við þurfum að setja samræmd mælanleg markmið í leik- og grunnskóla þar sem kannaður er árangur og vellíðan barna með það að markmiði að viðhalda og efla gæði náms og kennslu. Það þarf að samræma og tryggja grunnbúnað í skólum og leggja aukna áherslu á upplýsingatækni.
Stytting á sumarlokunum leikskóla, forvarnir og fræðsla fyrir ungt fólk og foreldra barna og unglinga eru þættir sem við viljum vinna að og efla enn frekar.
Látum gott af okkur leiða
Ofantalið verður hluti af stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. Stefnuskrá sem mótuð hefur verið af fjölmörgum Akureyringum sem vilja bæta bæinn sinn. Það er svo mikilvægt að við hugsum öll sem eitt vel um bæinn og séum dugleg að láta gott af okkur leiða til barna okkar, vina, fjölskyldu, nágranna og samfélagsins í heild. Við þökkum öllum þeim sem hafa lagt okkur lið í stefnuskrárvinnunni. Þetta er OKKAR AKUREYRI og við getum öll lagt af mörkum til að gera hana enn betri.
Eva Hrund Einarsdóttir.
Eva Hriund skipar annað sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri.