Oddur: Áhorfendurnir okkar áttundi maður

„Tilfinningin er bara svakalega góð og held að ég hafi aldrei spilað jafn skemmtilegan leik í þessu húsi áður,” sagði Oddur Gretarsson eftir sigur Akureyrar gegn HK í oddaleik í Höllinni á Akureyri í kvöld í undanúrslitum N1-deildar karla í handbolta. Akureyri vann með þremur mörkum, 28:25, og einvígið 2:1. Akureyri mætir FH í úrslitum sem lögðu Fram í Kaplakrika í kvöld í hinni í undanúrslitarimmunni.

„Áhorfendurnir voru algörlega frábærir og þeir voru okkar áttundi maður í leiknum. Svona eiga bara oddaleikir að vera og þetta var alvöru leikur Þetta var hníjafnt allann tímann en við náðum þriggja marka forystu sem var mikilvægt. Við vorum með hausinn í lagi allan tímann. Ég verð að hrósa liði HK sem eru alveg frábærir en við vorum betri. Mér er alveg saman hvaða liði við mætum í úrslitum, við ætlum að taka Íslandsmeistaratitilinn,” sagði Oddur en FH verður andstæðingur Akureyringar í úrslitum.

„Það var eitthvað af þessu sem fór inn hjá mér en það voru líka mörg skot að klikka hjá mér. Við unnum hins vegar og það var það sem skiptir máli,” sagði Guðmundur Hólmar Helgason leikmaður Akureyrar, en hann skoraði átta mörk í kvöld. „Þetta var hörkuleikur. HK-menn eru með frábært lið og við þurftum að hafa okkur alla við til þess að vinna í kvöld. Mér líst vel á FH-inga í úrslitunum. Þeir eru með hörkulið og þetta verður eflaust fimm leikja rimma. Við þurfum að leggja okkur alla fram í úrslitunum líkt og í kvöld til þess að verða Íslandsmeistararar en það er að sjálfsögðu takamarkið,” sagði Guðmundur.

Ólafur Bjarki Ragnarsson leikmaður HK hefur sýnt það í þessari undanúrslitarimmu og þarna er á ferðinni sennilega besta sóknarmaður sem spilar á Íslandi í dag. Ólafur ber HK-liðið á herðum sér og hann skoraði 12 mörk í leiknum í kvöld.

„Þetta var mjög tæpt og stál í stál allan tímann. Akureyringar eru með frábært lið og með frábæra áhorfendur. Við vissum að þetta yrði hörkuleikur og spennandi allan tímann en þeir voru betri í lokin. Ég var ágætlega sáttur með okkur í kvöld en ég hefði auðvitað vilja vinna leikinn. Það voru nokkur atriði í leiknum hjá okkur í kvöld þar sem við vorum að henda boltanum frá okkur en annars get ég ekki kvartað yfir okkar frammistöðu,” sagði Ólafur.

Nýjast