20. nóvember, 2007 - 16:21
Fréttir
Umhverfisnefnd Akureyrar ræddi á síðasta fundi sínum hvernig bregðast eigi við sand- og saltburði jarðvegsverktaka í bænum sem þeir virðast stunda án leyfis og vitundar bæjaryfirvalda. Verið er að draga úr sandburði hjá Akureyrarbæ og stórauka þrif gatna til að minnka svifryk og því sé það óviðunandi að verktakar komist upp með sand- og saltdreifingu, jafnvel á götum sem Akureyrarbær hefur ekki notað hálkueyðingu á. Umhverfisnefnd samþykkti bókun á fundinum þar sem lagt er til að samdar verði reglur um hálkuvarnir á Akureyri. Forstöðumanni umhverfismála var falið að leggja drög að þeim reglum fyrir næsta fund nefndarinnar. Jafnframt var honum falið að senda verktökum bréf og öðrum sem stundað hafa það að sand- og saltbera götur í bænum án heimildar og gera þeim grein fyrir afstöðu umhverfisnefndar og bæjaryfirvalda til þessa gjörnings.