Einum starfsmanni Punktsins á Akureyri hefur verið sagt upp störfum og starfshlutfall annarra starfsmanna skert. Þjónustan mun minnka töluvert og sumarlokanir lengjast. Þetta er gert vegna sparnaðar hjá Akureyrarbæ. Alls störfuðu sjö manns á Punktinum, en verða fjórir frá og með 1. júní næstkomandi, þar sem tveir starfsmenn hafa sagt upp vegna óánægju. Punkturinn er handverks- og tómstundarmiðstöð sem var stofnuð árið 1994 fyrir atvinnulausa og er opinn öllum í dag.
Sigríður Ágústsdóttir, list-og handverksleiðbeinandi á Punktinum, segir starfsfólkið virkilega ósátt við þessa skerðingu en nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags sem kom út í gær.
Yfirlýsing formanns og varaformanns
Vegna fréttar blaðsins hafa formaður og varaformaður Samfélags-og mannréttindarráðs sent frá sér yfirlýsingu:
Punkturinn er almenn handverks- og tómstundamiðstöð opin öllum almenningi. Aðalmarkmiðið er að gera fólki kleift að sækja námskeið hjá fag- og listafólki til að fá undirstöðuatriði á þekkingu á hverskonar handverki sem verið er að bjóða upp á ásamt því að bjóða upp á opna vinnuaðstöðu til handverksiðkunar. Rétt er að taka fram að ekki er um lögbundna starfsemi að ræða.
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2014 kom fram 15 milljón kr. þverpólitísk hagræðingarkrafa eyrnamerkt Punktinum frá bæjarráði til samfélags- og mannréttindaráðs sem fer með yfirstjórn málaflokksins. Það hefði þýtt lokun á starfseminni eða í besta falli mjög skerta starfsemi og endurskipulagningu á öllu starfi. Með samstilltu átaki tókst fulltrúum í samfélags- og mannréttindaráði að fá hagræðinguna lækkaða í tæpar 6 milljónir og að einungis hluti hennar eða rúmar 2 milljónir myndi lenda á Punktinum. Þverpólitísk samstaða var í ráðinu að fara þessa leið.
Þrátt fyrir lækkun á hagræðingarkröfu var ljóst að hjá Punktinum yrði ekki hægt að hagræða á annan hátt en að lækka launakostnað sem gert var með skerðingu á starfshlutföllum allra starfsmanna Punktsins. Engum hefur verið sagt upp störfum að fullu. Með þessum aðgerðum ætti að nást sú hagræðing sem krafa var um.
Eins og gefur að skilja var starfsfólk ekki sátt við aðgerðirnar en formaður og varaformaður samfélags- og mannréttindaráðs funduðu með starfsfólki Punktsins til þess að fara yfir málið og útskýra.
Hlín Bolladóttir formaður samfélags- og mannréttindaráðs
Tryggvi Þór Gunnarsson varaformaður samfélags- og mannréttindaráðs