Nýtt Vikublað komið út

Vikublaðið komið út.
Vikublaðið komið út.

Vikublaðið er komið út með alls konar efni að venju.

Meðal þess sem lesa má um í nýju blaði er umfjöllun um jarðskjálftarannsóknir í Traðargerði við Húsavík og opnun kvennaathvarfs á Akureyri. Þá er fjallað um það mikla starf sem fram hefur farið í sumar, m.a. í Kjarnaskógi en skógar komu illa undan snjóþungum vetri og endist árið ekki í tiltektina. Stjarna úr heimi alþjóðlegrar kvikmyndatónlistar er væntanleg í Hof á Akureyri, biðlisti hefur verið eftir að komast að á tjaldsvæðum í Norðurþingi, enda veðurblíða mikil á þeim slóðum.

Þá má næla sér í uppskrift af vegan marensbotnum með lestri blaðsins. Fjallað er um landamæraskimun tvö sem fram fer í húsnæði við Strandgötu og hvernig hún gengur fyrir sig. Oddur Helgi Halldórsson veltir fyrir sér í grein af hverju ekki megi hjóla í Vaðlaheiðagöngum og Arngrímur B. Jóhannsson þakkar slökkviliði og lögreglu  fyrir góð vinnubrögð á vettvangi elds.

Verktaki skildi eftir rusl og spilliefni á Húsavíkurhöfða og þarf bærinn að hreinsa upp á eigin kostnað. Æfingar eru hafnar á nýju sviðslistaverki sem frumsýnt verður á Hælinu í september. Ungir krakkar í Siglingaklúbbnum Nökkva stóðu sig vel á Íslandsmóti á dögunum.

Um þetta er fjallað í blaðinu og líka sagt frá ansi merkilegum ungum veiðimanni sem fór með föðurbróður sínum í veiðiferð í Laxá fyrr í þessum mánuði. Hann veiddi 60 sentímetra langan urriða á svæði sem nefnist  Brunnhellishróf. Hannn notaði flugu sem afi hans Gylfi heitinn Kristjánsson hnýtti og heitir Krókurinn. Veiðimaðurinn, Benjamín Þorri Bergsson 14 ára veiddi á sama stað í fyrra og fékk jafnstóran fisk með sömu flugu. Jón Gunnar Benjamínsson segir frá þessu í spjalli í nýju Vikublaði.


Athugasemdir

Nýjast