Nýtt Vikublað komið út

Nýtt Vikublað komið út.
Nýtt Vikublað komið út.

Nýtt Vikublað er komið út. Alls konar efni líkt og vanalega má lesa í blaðinu. Spjallað er við Frey Aðalsteinsson, gamlan Akureyring sem búið hefur í áratugi í Stavanger í Noregi. Hann byrjaði að æfa kraftlyftingar um leið og slíkar æfingar hófust á Akureyri árið 1974. Þá var hann 15 ára gamall. Hann er enn að ríflega sextugur og stefnir ótrauður að því að taka þátt í væntanlegu móti þegar þess verður minnst að lyftingar hafa verið stundaðar norðan heiða í hálfa öld.

Skapti Hallgrímsson blaðamaður segir frá lifandi leiðsögn sem hann er með um sýninguna Tónlistarbærinn Akureyri á Minjasafninu. Sú síðasta í bili er í dag. Fyrsti bjórhlaupsmeistari Húsavíkur var krýndur um liðna helgi og er fjallað um þann viðburð í blaðinu. Bjarney Ingólfsdóttir safnar heimildum um lífið í Flatey og draumurinn að búa til hlaðvarpsþætti úr efninu. Eins er fjallað í máli og myndum um heimsókn karlalandsliðsins í fimleikum til Húsavíkur en góður rómur var gerður að þeirri heimsókn.

Blikur eru á lofti í atvinnumálum á Húsavík, slökkt var á ofnum PCC þar í bæ í byrjun vikunnar og Aðalsteinn Á. Baldursson formaður Framsýnar telur að komandi vetur verði þungur í skauti. Rætt er við hann í Vikublaðinu. Einnig lýsa þær Sigrún Steinarsdóttir og Sunna Ósk Jakobsdóttir stöðu sem margir búa við á Akureyri. Þær halda úti facebook síðunni Matargjafir á Akureyri og nágrenni. Það hefur harnað á dalnum og vaxandi hópur fólk nær ekki endum saman. Sífellt fleiri óska eftir aðstoð við að kaupa í matinn. Um 250 manns hafa undanfarið leitað á náðir þeirra í mánuði og hafa aldrei verið fleiri.


Athugasemdir

Nýjast