Vinna við nýtt æfingasvæði hjá Golfklúbbi Akureyrar er í fullum gangi á Jaðarsvelli en áætlað er að það verði tilbúið með vorinu.
Verkið hafði verið stopp í nokkra daga vegna mikillar snjókomu en í síðustu viku var botnplatan steypt og byrjað er að slá upp fyrir veggjum.
Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri GA, segir nýja æfingasvæðið muni verða mikil bragarbót fyrir golfara.
„Þetta gjörbreytir öllu fyrir okkur. Æfingasvæðið stækkar til muna og þegar það verður allt orðið tilbúið bjóðum við upp á eitt besta golfsvæði landsins,“ segir Ágúst. Framkvæmdin kostar um 40 milljónir króna.