Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum við gerð hringtorgs á mótum Borgarbrautar og Bugðusíðu á komandi hausti. Framkvæmdaráð frestaði málinu á síðasta fundi sínum, en upp komu umræður um hvort betra væri að færa hringtorgið ofar, að mótum Borgarbrautar og Merkigils.
Dagur Fannar Dagsson formaður framkvæmdaráðs segir að niðurstaðan sé sú að halda hringtorginu á fyrri stað, við Bugðusíðu. Þar myndist gjarnan tappi á álagstímum, þegar farið er úr Síðuhverfi og tekin vinstri beygja niður í bæ. Stefnt er að því að gatnagerðarframkvæmdum verði öllum lokið í haust.