Samkomulag um nýtt hjúkrunarheimili fyrir 60 íbúa á Akureyri

Séð yfir Lögmannshlíð. 60 íbúðir munu bætast við á svæðinu fyrir aldraða.
Séð yfir Lögmannshlíð. 60 íbúðir munu bætast við á svæðinu fyrir aldraða.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar hafa undirritað samning um byggingu 60 rýma hjúkrunarheimilis við Vestursíðu 9 á Akureyri. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er um þrír milljarðar króna sem skiptist þannig að 85% greiðast úr ríkissjóði en Akureyrarbær greiðir 15%.

Áætlað er að heimilið verði tilbúið til notkunar í lok árs 2023. Þar með verða hjúkrunarrými á Akureyri rúmlega 230 en þau eru núna um 170. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu.

Samkvæmt mati heilbrigðisráðuneytisins er skortur á hjúkrunarrýmum á Akureyri og fyrirsjáanlegt að þörf fyrir fleiri rými aukist hratt á næstu árum.

„Það er afskaplega gleðilegt að samstarf ráðuneytisins og Akureyrarbæjar um þetta mikilvæga verkefni liggi nú fyrir skjalfest með samningi. Það er fátt ánægjulegra en að sjá stór skref stigin í átt að aukinni og bættri þjónustu við aldraða. Akureyrarbær hefur sinnt þeim málum afar vel, bæði við aldraða heima og á hjúkrunarheimilum og ég veit að svo mun verða áfram“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 


Athugasemdir

Nýjast