Nytjamarkaður Fjölsmiðjunnar á Akureyri hefur slegið í gegn

Starfsemi Fjölsmiðjunnar á Akureyri gengur mjög vel og hafa verið næg verkefni fyrir alla þá sem hana sækja, að sögn Erlings Kristjánssonar, forstöðumanns. Að sögn Erlings snýst starfsemin að mestu þessa dagana um þrjú stór verkefni; nytjamarkað, bílaþvottastöð og mötuneyti en að auki eru fjölmörg smærri verkefni, svo sem snjómokstur og búslóðaflutningar.  

„Nytjamarkaðurinn hefur slegið í gegn og það er greinilegt að mikil þörf hefur verið fyrir verslun með ódýra húsmuni. Síðan krepputíðin hófst í haust hefur salan jafnvel verið ennþá betri í notuðum húsmunum. Margir leggja leið sína í búðina til okkar á hverjum degi og mikið er að gera við að keyra muni heim til fólks sem kaupir hjá okkur. Einnig er mikið að gera við að sækja hluti út í bæ því greinilegt er að margir vilja gefa okkur hluti frekar en að henda þeim. Við rekum einnig bílaþvottastöð sem hefur gengið vel, einstaklingar og fyrirtæki nýta sér þessa þjónustu og ræðst það töluvert af tíðarfari hvernig aðsóknin er en oftast er hægt að komast að með stuttum fyrirvara. Bílarnir eru oftast teknir í svokölluð alþrif, en þá eru þeir tjöruþvegnir, sápuþvegnir og síðan bónaðir auk þess sem allt er þrifið að innan," segir Erlingur.

Í mötuneyti Fjölsmiðjunnar er starfsfólki séð fyrir morgunmat og hádegismat auk þess sem ýmsir aðrir koma þangað í mat. "Það mjög misjafnt hve margir utanaðkomandi líta við hjá okkur en þegar um hefðbundnar íslenskar kjötmáltíðir er að ræða koma margir," segir Erlingur.

„Flestir sem sækja vinnu til okkar standa sig vel og eru góðir starfskraftar. Það er hins vegar erfitt að finna vinnu á almennum markaði fyrir þá sem hafa staðið sig vel í vinnu hjá okkur.  Því miður getum við ekki tekið alla í vinnu sem þess óska og alltaf er dálítill biðlisti," sagði Erlingur.

Nýjast