Nýr Vikudagur er komin út. Þar má að venju finna lesefni af ýmsu tagi.
Júlia Þrastardóttir gullsmiður er að hanna nýjan skúfhólk sem ætlaður er til hversdagsbrúks og verður á viðráðanlegu verði. Starfsmenn Fab Lab á Akureyri munu þrívíddarprenta skúfhólkinn á Handverkshátíð á Hrafnagili í ágúst þannig að gestir geta fylgst með hvernig hann verður til. Júlía rekur gullsmíðaverkstæðið djúls við Tryggvabraut á Akureyri.
Uppgangur í fiskeldi hér á landi hefur í för með sér að mikið er að gera við framleiðslu á fiskafóðri hjá Fóðurverksmiðjunni Laxá. Þar á bæ sjá menn fyrir sér að fullnýta afkastagetu verksmiðjunnar, framleiða um 20 þúsund tonn á ári, á næsta áratug eða svo.
Útsvarstekjur Akureyrarbæjar eru töluvert hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það þýðir að bærinn er að fá um 80 milljónir meira í kassinn, sem vitanlega er jákvætt.
Framkvæmdir standa yfir við nýja hreinsistöð á landfyllingu við Sandgerðisbót sem ætlunin er að taka í notkun vorið 2020. Með tilkomu hennar verður strandlengjan við Akureyri hrein og fín.
Ferðaskrifstofa Akureyrar, í samstarfi við bresku ferðaskrifstofuna Superbreak, hefur hafið sölu á flugferðum beint frá Akureyrarflugvelli til Bretlands. Heimamenn taka beinu flugi frá Akureyri fagnandi.
Norðurslóðasetrið hefur verið útnefnt sem besta nýja safnið á Norðurlandi og þar á bæ eru menn stoltir.
Um 400 manns koma á Atmstbókasafnið á Akureyri á hverjum degi, sem er dágóður slatti, en um tíðina hefur gestakomum heldur fækkað og útlán hafa dregist saman. Miðað við það sem áður var. Spjallað er við Hólmkel Hreinsson amtsbókavörð í nýjum Vikudegi.
Eggert H. Sigmundsson býður upp á mikla veislu í matarhorni og fjallað er um húsið númer 17 við Norðurgötu í þættinum Húsin í bænum.