Vikudagur er komin út líkt og venja er á fimmtudögum. Á síðunum 16 er alls konar efni. Opnuviðtalið er við hjónin á Brúnum í Eyjafjarðarsveit, þau Hugrúnu Hjörleifsdóttur og Einar Gíslason sem reka Brúnirhorse heima á hlaði, veitingasölu, listaskála með fínum sýningum og efna til sýninga á íslenska hestinum á sínum heimavelli. Hugrún er líka gjörgæsluhjúkrunarfræðingur og starfar sem námstjóri á Sjúkrahúsinu á Akureyri, Einar kennir myndlist við Hrafnagilsskóla, er útskrifaður frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, en hafði áður lokið námi í búfræði og stálsmíði.
Íþróttaumfjöllun er á sínum stað, í Matarhorni býður Anna Björk Ívarsdóttir upp á sumarlegan saltfisk og gómsætar marengskökur, nýráðinn kynningar- og markaðsstjóri MAk, Indíana Ása Hreinsdóttir er í Spjallinu.
Boðið er upp á fróðleik um húsið númer 16 við Ásabyggð, áhugamaður um betri byggð skrifar grein um Aðalskipulag Akureyrar 2018 til 2013 og formaður Einingar Iðju greinir frá því að mikill áhugi sé fyrir nýjum íbúðum sem Bjarg íbúðafélag hyggst reisa í náinni framtíð við Guðmannshaga í Naustahverfi. Þar víkja hagnaðarsjónarmið fyrir öryggi á leigumarkaði.
Meira er um framkvæmdir á því sviði, á reit við Móasíðu 1 stendur til að breyta húsnæði sem áður hýsti leikskóla í íbúðir og bæta að auki við nýju húsi þannig að á reitnum verði 20 íbúðir þegar búið er að byggja.
Bændur í Eyjafirði eru að hefja seinni slátt um þessar mundir, sá fyrri gekk vel, uppskeran var góð. Fyrningar fyrri ára eru miklar og sjá margir ekki annan kost en henda uppskeru úr seinni slætti.
Nokkrir glaðbeittir miðaldra menn ætla að skella í dúndurdjamm í Hofi um Verslunarmannahelgina, fyrst verður spariball með plötusnúðum sem kalla sig N3 og upplagt fyrir þá sem ætla að mæta að huga að diskógallanum. Páll Óskar flytur sig um set, hið víðfræga Sjallaball verður í Hofi á sunnudagskvöldi um Versló.
Áhugasamir geta nálgast prentútgáfuna á sölustöðum hér og hvar í höfuðstað Norðurlands. Það er líka hægt að gerast fastur áskrifandi. Bara hafa samband.