Nýr stígur frá Wilhelmínugötu að Hamraafleggjara

Hafist verður handa við að leggja um 600 metra langan stíg með fram Kjarnavegi komandi sumar.
Hafist verður handa við að leggja um 600 metra langan stíg með fram Kjarnavegi komandi sumar.

Hafist verður handa við að leggja stíg með fram Kjarnavegi  komandi sumar. Hann verður um 600 metra langur og liggur frá Wilhelmínugötu og suður að afleggjaranum við Hamra. Stígurinn liggur vestan við Kjarnagötuna.

 Áætlaður kostnaður við stígagerðina er um 30 milljónir króna og verða ýmis hliðarverk unnin samhliða stígagerðinni. Jónas Valdimarsson verkefnastjóri hönnunar hjá Umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar segir að um þessar mundir sé verið að ljúka hönnun og endanlegri kostnaðaráætlun.

„Útgangspunkturinn með þessu verkefni er bætt umferðaröryggi. Þetta er fjölfarin leið, bæði barna og fullorðinna, gangandi og hjólandi og sérstakur stígur fyrir þá umferð eykur öryggið til muna,“ segir Jónas. Þá verður skurður sem liggur meðfram veginum færður vestar en hann er sem mun auka öryggi t.d. verði útafkeyrsla.

 Þarf að endurhugsa stíginn síðar

Andri Teitsson formaður Umhverfis- og mannvirkjaráðs segir að ekki sé gert ráð fyrir aðskildum göngu- og hjólastíg,  meðal annars vegna þess að stígurinn sé í einhverjum skilningi „til bráðabirgða“ þar sem ljóst sé að fyrr eða síðar verði hafist handa við að skipuleggja nýtt íbúðarhverfi á þessum slóðum, „og þá þarf hvort sem er að endurhugsa þennan stíg,“ segir hann og bætir við að snúnasta verkefnið við stígagerðina sé að vanda vel frágang við gagnamót Hamra-afleggjarans. Þau séu flókin, þar sem einnig sé þarna reiðleið sem þveri stíginn og Kjarnaveginn.

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast