Nýr samningur og nýtt húsnæði

Fulltrúar Akureyrardeildar Rauða kross Íslands, Geðverndarfélags Akureyrar og Akureyrarbæjar skrifuðu nú í hádeginu undir samning um áframhaldandi rekstur Lautarinnar, dagsathvarfs fyrir fólk sem á við geðraskanir að stríða. Athvarfið er nú til húsa í Þingvallastræti 32 en flyst með vorinu í nýtt húsnæði þar sem áður var leikskólinn Klappir að Brekkugötu 34. Einnig er er gert ráð fyrir að byggja nýtt áfangaheimili fyrir fólk með langvinnar geðraskanir á Akureyri, sem leysa af hólmi núverandi áfangaheimili í Álfabyggð 4, sem er í eigu Geðverndarfélags Akureyrar og nágrennis. Við undirritunina í hádeginu lýsti Brynjólfur Ingvarsson formaður félagsins því yfir, að Geðverndarfélagið muni ráðstafa skuldlausu andvirði Álfabyggðar 4 til byggingar húsnæðis í þágu geðfatlaðra. Endanlegar ákvarðanir verði teknar þegar Álfabyggð 4 verður seld í samráði við Framkvæmdasjóð fatlaðra.

Rekstraráætlun Lautarinnar er um 15 milljónir króna á ári. Geðverndarfélagið leggur fram 2 milljónir króna og Akureyrarbær 4 milljónir króna. Úr samningi við félagsmálaráðuneytið koma 5 milljónir króna og Rauði Krossinn leggur fram 4 milljónir króna. Áætlaður endurbótakostnaður bæjarins á húsnæðinu Brekkugötu 34 er um 10. millónir króna. Meginmarkmiðið með starfseminni er  að rjúfa félagslega einangrun fólks með langvinnar geðraskanir, auka samfélagsþátttöku þess og bjóða tækifæri til samveru og fræðslu. Samningurinn er fyrir árin 2007-2009. Akureyrardeild Rauða krossins mun annast daglegan rekstur athvarfsins en Geðverndarfélag Akureyrar sér um fræðslu og þjálfun starfsfólks, ásamt því að veita faglega ráðgjöf um daglega starfsemi. Félaginu er einnig ætlað að standa fyrir a.m.k. tveimur fyrirlestrum eða fræðslufundum á vetri um málefni geðfatlaðra fyrir starfsmenn og sjálfboðaliða athvarfsins. Stefnt er að því að athvarfið verði áfram opið virka daga frá kl. 9 til 17.

Nýjast