Nýr eigandi Sveitahótelsins í Sveinbjarnargerði

Sigurður Karl, jafnan þekktur sem Siggi á Strikinu.
Sigurður Karl, jafnan þekktur sem Siggi á Strikinu.

Eignarhaldsfélagið Sólfjörð hótels hefur keypt Sveitahótelið í Sveinbjarnargerði í austanverðum Eyjafirði. Að Sólfjörð hótels stendur Sigurður Karl Jóhannsson veitingamaður á Akureyri. Seljandi er Byggðastofnun og var skrifað undir samninga um viðskiptin í dag, þriðjudag. Sveitahótelið í Sveinbjarnargerði er staðsett á fallegum stað í austanverðum Eyjafirði, aðeins 15 kílómetra frá Akureyri.

Gisting er í tveimur húsum og eru herbergin samtals 33. Öll eru þau með baðherbergi og helstu þægindum. Veislusalur er fyrir allt að 100 manns í sæti og hefur hótelið verið vinsælt á undanförnum árum undir mannamót og ýmsa fundi.

Góðar gönguleiðir eru í nágrenninu og stutt í alla þjónustu og afþreyingu.

Eftir amstur dagsins, geta gestir meðal annars slappað af í heitum potti og notuð frábærs útsýnis og veitinga.

Sigurður Karl segir að kaupin hafi verið í undirbúningi í nokkurn tíma.

„Ferðamönnum hefur fjölgað ár frá ári og ég er bjartsýnn á framtíðina. Sveitahótelið í Sveinbjarnargerði er nokkuð vel þekkt og bókanir sumarsins lofa góðu. Mikil uppbygging hefur átt sér stað í ferðaþjónustu á Norðurlandi á undanförnum árum, þannig að reksturinn leggst vel í mig. Á næstu vikum og mánuðum verður ráðist í umtalsverðar breytingar á húsnæðinu, þannig að hótelið uppfylli enn frekar kröfur gesta.

Sérstök áhersla verður lögð á mat úr héraði. Á svæðinu eru starfandi  öflug matvælafyrirtæki, bæði á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Markmiðið verður að gestir njóti þess besta sem svæðið hefur á boðstólum,“ segir Sigurður Karl Jóhannsson.

Nýjast