Nýr bátur í Grímseyjarflotann

„Það er alltaf gaman að fá nýjan bát,“ segir Jóhannes Henningsson sem ásamt bræðrum sínum, Sigurði o…
„Það er alltaf gaman að fá nýjan bát,“ segir Jóhannes Henningsson sem ásamt bræðrum sínum, Sigurði og Henning komu með nýjan Björn EA 220 til Grímseyjar.

„Það er alltaf gaman að fá nýjan bát,“ segir Jóhannes Henningsson sem ásamt bræðrum sínum, Sigurði og Henning komu með nýjan Björn EA 220 til Grímseyjar síðdegis á sunnudag. Báturinn er gerður út af félaginu Heimskautssport sem er í eigu bræðranna sem gjarnan eru kenndir við Höfða og fjölskyldna þeirra. Bátar úr eynni sigldu á móti Birni og buðu velkomin, en hefð er fyrir því að fagna nýjum bátum í Grímseyjarflotann með því að taka vel á móti þeim og áhöfnum þeirra.

Sigldu bræðurnir frá Grímsey á gamla Birni EA og fengu nýjan í staðinn. Björn EA er af gerðinni Kleópatra 44, smíðaður hjá Trefjum í Hafnarfirði. „Við erum að endurnýja hjá okkur, skipta þeim gamla út fyrir nýjan, þeir eru svipaðir en sá nýi þó örlítið stærri,“ segir Jóhannes. Þeir notuðu tímann í byrjun vikunnar til að gera bátinnkláran  fyrir veiðar, luku uppsetningu á netaspili og fóru prufutúr, „en svo erum við bara klárir,“ segir hann og bætir við að vel hafi viðrað í Grímsey undanfarin hálfan mánuð, kærkominn sumarauki eftir frekar sólarlítið sumar.

Ekki vandræði með aflann

Jóhannes segir að vel hafi fiskast á liðnu sumri, „það eru nú ekki vandræðin með aflann, frekar að fá að veiða hann,“ segir hann. Líflegt var í Grímsey í sumar meðan á strandveiðum stóð, en svo vel gekk að kvóti var búinn í byrjun ágúst og strandveiðitímabili þar með lokið.  „Það stoppaði allt þá, en var býsna mikið umleikis hjá okkur fyrri hluta sumars,“ segir hann og bætir við að haustið líti vel út, gott veður og fínt fiskerí.

 

 


Athugasemdir

Nýjast