Nýjungar í námi við HA

Háskólinn á Akureyri.
Háskólinn á Akureyri.

Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík hafa undirritað samstarfssamning um nám í tölvunarfræði sem hægt er að sækja við Háskólann á Akureyri frá haustinu 2015. Námið er á ábyrgð og er kennt af kennurum tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík, í samvinnu við kennara við Háskólann á Akureyri. Boðið verður uppá tveggja ára diplómanám í tölvunarfræði.  Námið veitir góðan undirbúning fyrir upplýsingatæknistörf sem og fyrir áframhaldandi háskólanám. 


Aðeins þarf að bæta við einu ári til að ljúka BSc-gráðu í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík, en einnig má nýta diplóma í tölvunarfræði sem undirstöðu fyrir annað nám í öðrum hvorum háskólanum. Sem fyrr segir er námið á ábyrgð HR og nemendur eru skráðir við þann skóla en sækja sitt nám við Háskólann á Akureyri, þar sem faglegur umsjónarmaður námsins verður til staðar fyrir nemendur.  Námið er því blanda af staðar- og fjarnámi þar sem fyrirlestrar eru aðgengilegir á netinu en dæma- og verkefnatímar fara fram á staðnum undir umsjón kennara. Skráning í námið fer fram á vef Háskólans í Reykjavík á vefnum www.hr.is.


Einnig verður boðið upp á nýtt meistara- og diplómanám í fjölmiðla- og boðskiptafræðum, sem samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Meginmarkmið námsins er að auka skilning á flóknu, fjölbreyttu og síbreytilegu fjölmiðlaumhverfi og eru miklar vonir bundnar við að samstarfið skili báðum skólum aukinni grósku í rannsóknum á þessum lykilþætti í okkar lýðræðislegu stjórnskipan. Nemendur beggja skóla sækja sameiginleg fræðileg námskeið, alls 40 ECTS sem boðin verða bæði í fjarnámi og staðnámi. Mikil áhersla er í náminu á þjálfun í rannsóknum og sækja nemendur aðferðafræðinámskeið alls 30 ECTS hver í sínum skóla. Valnámskeið, 24 ECTS og lokaritgerð 30 ECTS eru einnig tekin í heimaskóla.

Nýjast