Nýjar tegundir komu fram í árlegri fuglatalningu

Gráþröstur. Mynd: Þorgils Sigurðsson.
Gráþröstur. Mynd: Þorgils Sigurðsson.

Árleg vetrarfuglatalning á Akureyri fór fram nú í byrjun árs og tóku níu manns þátt í talningunni að þessu sinni, samkvæmt upplýsingum Jóns Magnússonar fuglaáhugamanns. “Fuglatalningadagarnir hafa verið færðir svolítið fram á nýja árið vegna mikilla flugeldasprenginga um áramótin, sem hafa vaxið verulega síðasta áratug. Sprengingarnar hafa nokkuð mikinn fælingarmátt fyrir fuglana sem halda til í næsta nágrenni við sprengjusvæðin. Talningin gekk vel núna og aðstæður nokkuð góðar, stillt veður en mikill snjór  á jörðu.”

Jón segir að alls hafi sést um 19 tegundir fugla á Akureyri og við ströndina, samtals 3133 fuglar sem sé nokkuð gott en oft sjást í kringum 2000 fuglar. “Nýjar fuglategundir eru að koma fram (glókollur og hvinönd) og einnig fjölgar í flækingahópnum. Stara er að fjölga verulega á Akureyri (108) og hefur svo verið síðustu 3 árin og búast má við enn meiri aukningu næstu sumur. Þá sáust 16 skógarþrestir, 9 gráþrestir og 4 svartþrestir,” segir Jón.

Árlegar vetrarfuglatalningar hófust á Íslandi um jólaleytið 1952 að amerískri fyrirmynd. Þetta verkefni er ein lengsta samfellda vöktun sem stunduð hefur verið hér á landi og sú sem tekur til flestra fuglategunda. Fyrsta árið var talið á 11 svæðum en þeim fjölgaði svo jafnt og þétt næstu árin og voru þau orðin 44 árið 1958 víðsvegar um land en fremur fá svæði bættust síðan við fram yfir 1970, að sögn Jóns.

“Fuglaáhugamenn tóku þessu nýja verkefni fagnandi og töldu margir af upphafsmönnum svæði sín áratugum saman eftir það. Frá upphafi hafa áhugamenn unnið þetta verk í sjálfboðavinnu og á síðustu árum hafa hátt á annað hundrað manns tekið þátt. Talningar fóru lengst af fram á frídegi milli jóla og nýárs og oft varð annar dagur jóla fyrir valinu. Af þeim sökum hafa talningar þessar oft verið nefndar „jólatalningar”. Markmið vetrarfuglatalninga er að safna upplýsingum um fjölda og dreifingu fugla að vetrarlagi. Talningar eru staðlaðar og geta því nýtist til vöktunar einstakra stofna,” segir Jón.

 

 

Nýjast