Spánverjinn Alberto Porro Carmona, tónlistarkennari við Tónlistarskólann á Akureyri, hefur unnið að gerð kennsluefnis fyrir börn undanfarna mánuði. Hann stefnir að því að útbúa kennslubækur fyrir öll helstu hljóðfærin og er fyrsta bókin þegar komin út. Það er kennslubók fyrir saxófón sem er sú fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Alberto vill með þessu fara nýjar leiðir í tónlistarkennslu, gera eitthvað nýtt og nálgast tónlistarkennslu með öðrum hætti en venjulega er gert.
Ég skoðaði gríðarlegt magn bóka, las og greindi innihald og uppbyggingu og komst að því að langflestar bækurnar voru ekki eins og ég myndi vilja hafa þær. Mig langaði til að fara nýjar leiðir í tónlistarkennslu, gera eitthvað nýtt og nálgast tónlistarkennslu með öðrum hætti en venjulega er gert. Því snúast þessar kennslubækur frekar um tilfinningar og upplifun en fræðileg hugtök og kenningar. Fræðin eru að sjálfsögðu mikilvæg og auðvitað kennum við fræðilega hluti en tilfinningar eru ekki síður mikilvægar, tilfinningar og upplifun. Markmið mitt með þessum kennslubókum er að vekja áhuga og tjáningarþörf nemandans sem hvetur hann áfram.
Meðal þess sem Alberto notar við kennsluna í bókunum eru ævintýri, ljóð, myndlist og skemmtilegar teikningar. Þannig eiga krakkarnir auðveldara með að tengjast viðfangsefninu. Sem dæmi má nefna að æfingunum í bókinni eru gefin kunnugleg nöfn s.s. Blönduós, Eiðar o.s.frv. í stað þess að nota númer en þetta auðveldar nemendum að muna og þekkja æfingarnar. Öllum lögum fylgir texti og áður en byrjað er að læra lag á hljóðfæri þá syngur nemandinn lagið. Þetta hjálpar nemendunum mikið við takt og túlkun á laginu og flýtir fyrir lærdómsferlinu. Þá eru nótur fyrir píanó með öllum lögum til að kennari geti spilað með nemandanum. Alberto hefur fengið föður sinn til að skrifa teygju- og slökunaræfingar í bókunum sem koma sér vel við æfingarnar. Í kennslutímum geta nemendur síðan beðið um smá tíma til að slaka á og róa sig og gengur þeim þá yfirleitt betur á eftir.
Margir lagt honum lið
Við gerð bókanna nýtur Alberto liðsinnis 23 lista- og fræðimanna víðsvegar um heim sem flestir gefa alla vinnu sína. Ég vildi gera bækurnar fallegar með myndum og málverkum og í þeim eru t.d. kaflar með jólalögum og lögum fyrir hljómsveitir þannig að vonandi verður þetta meira en bara kennslubækur, heldur líka bækur sem hægt verður að grípa í við ýmis tækifæri.
Það er ekki einungis útfærsla bókanna og nálgun við kennsluefnið sem er sérstök heldur einnig útgáfa bókanna. Bækurnar eru eins ódýrar og hugsast getur og hægt verður að sækja þær á netinu, þessar útgáfur eiga ekki að skila hagnaði. Þeir peningar og styrkir sem safnast hafa, fara í vinnslu og prentkostnað. Tilgangurinn er ekki að græða pening.
Alberto er afar þakklátur fyrir allan þann stuðning sem hann hefur fengið en fjölmargir hafa styrkt verkefnið og gert það að verkum að draumur hans Alberto hefur orðið að veruleika. Meðal þeirra sem stutt hann hafa eru; Ásprent, Bautinn, KEA, Akureyrarbær, Tónlistarskóli Akureyrar, Höldur, Félag tónlistakennara, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Eymundsson, SISL, Lúðrasveit Akureyrar, Epli.is og Fréttablaðið.