Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins síðastliðinn fimmtudag.
Rauði krossinn í Þingeyjarsýslu hefur stigið stórt og mikilvægt skref í átt að aukinni samfélagsþátttöku og sjálfbærni með undirritun leigusamnings fyrir nýja verslun á Húsavík. Verslunin verður staðsett að Vallholtsvegi 9 og opnar á þriðjudag nk. Undirritunin fór fram við hátíðlega athöfn þann 15. október sl. þar sem Halldóra Gunnarsdóttir, formaður Rauða krossins í Þingeyjarsýslu, og Elke Christine Wald, eigandi húsnæðisins, handsöluðu samninginn.

Það er óhætt að fullyrða að mikil eftirvænting ríki meðal félagsmanna Rauðakrossins fyrir opnun búðarinnar og ekki síður í samfélaginu á Húsavík enda sjónarsviptir af versluninni sem áður var rekin í gömlu bifreiðastöðinni.
„Við erum ótrúlega spennt fyrir þessu skrefi,“ segir Halldóra Gunnarsdóttir í samtali við Vikublaðið á mánudag sl. Verslun Rauðakrossins hefur verðið rekin um árabil á Húsavík þar til samtökin misstu húsnæðið eins og áður segir.
Sem fyrr munu Þingeyingar geta gefið og keypt notaðar vörur á góðu verði og hefur verslunin ætíð verið vel nýtt. Þó verslunin sé vissulega mikilvægur þáttur í fjáröflun Rauðakrossins þá er rekstur búðarinnar einnig mikilvægur liður í því að efla sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð.
Verslanir Rauða krossins gegna mikilvægu hlutverki í samfélaginu. Þær eru ekki aðeins tekjulind fyrir hjálparstarf samtakanna, heldur einnig vettvangur fyrir sjálfboðaliða til að leggja sitt af mörkum og fyrir íbúa til að taka þátt í samfélagsverkefnum. Með því að gefa og kaupa notaðar vörur stuðla íbúar að minni sóun og umhverfisvænni neyslu. Slíkar verslanir hafa víða um land reynst mikilvægur þáttur í að efla tengsl milli fólks og skapa vettvang fyrir samveru og samvinnu.
Næstu skref í verkefninu er að sögn Halldóru að klára nauðsynlegar endurbætur á húsnæðinu svo hægt verði að opna verslunina sem fyrst. Rauði krossinn leitaði til samfélagsins eftir aðstoð við framkvæmdir og undirbúning á Facebooksíðu sinni en hjálpar samtök geta alltaf þegið fleiri hendur viljugra sjálfboðaliða.
Þau sem vilja leggja sitt af mörkum geta haft samband við Rauða krossinn í Þingeyjarsýslu í gegnum Facebook Messenger eða með því að senda tölvupóst á netfangið formadur.thing@redcross.is.
„Formleg opnun verður vonandi innan skamms. Við höfum verið með opið hús í nokkur skipti frá því í vor þegar ákveðið var að fara þarna inn, og aftur núna eftir að við skrifuðum undir leigusamninginn á dögunum. Þar vorum við að selja allt út úr húsinu sem að gagnaðist okkur ekki. Svo höfum við verið í framkvæmdum og þeim er ekki lokið og því ekki búið að ákveða hvaða dag búðin verður opnuð,“ segir Halldóra en eftir að blaðið fór í prentun var ákveðið að opnun búðarinnar yrði á þriðjudag nk.
„Framkvæmdir ganga nokkuð vel og við erum komin vel áfram en það á eftir að taka síðustu handtökin og svo stilla upp búðinni, það er ekki komin upp hilla enn þá,“ segir Halldóra en mikil tilhlökkun er eftir opnun verslunarinnar þar sem fólk getur komið saman í hlýju og notalegu umhverfi, gert góð kaup og stutt í leiðinni við ómetanlegt starf Rauða krossins.
Opnun verslunarinnar á Vallholtsvegi 9 er ekki aðeins nýr kafli í sögu Rauða krossins á svæðinu, heldur einnig tækifæri fyrir íbúa Húsavíkur og nágrennis til að taka virkan þátt í samfélagslegu verkefni sem stuðlar að sjálfbærni, samstöðu og hjálpsemi. Með samstilltu átaki getur samfélagið skapað stað sem endurspeglar gildi Rauða krossins: mannúð, samhjálp og virðingu fyrir umhverfinu.