Ný vefsíða geymir fróðleik um strand- og fiskveiðimenningu

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra opnaði í morgun síðu á veraldarvefnum, sem hefur að geyma margvíslegan fróðleik um strand- og fiskveiðimenningu Íslands. Síðan; http://www.fishernet.is/ er unnin af Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og fór athöfnin fram að Borgum á Akureyri.  

Starfsmenn Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar kynntu vefinn, sögðu frá verkefninu og ráðstefnu því tengdu, sem haldin verður á Akureyri í næsta mánuði. Fishernet er heiti á þriggja ára samevrópsku verkefni, sem hófst þann 1. september 2008, og miðar að því að varðveita, miðla og nýta menningararf sem tengist sjósókn, umhverfisþekkingu sjómanna og sérstakri menningu fiskveiðisamfélaga. Hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er áherslan á fiskveiðimenningu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum en samstarf er einnig við fjölmargar stofnanir, söfn, sérfræðinga, samtök og ekki síst áhugafólk sem á einn eða annan hátt sinna fiskveiðum og menningarstarfi á svæðinu.

Af hálfu Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar er nú í gangi vinna að umfangsmiklu gagnasafni. Þar verður að finna flest það er lýtur að strand- og fiskveiðimenningu þjóðarinnar að fornu og nýju. Má þar nefna fornminjar við sjávarsíðuna, kynningu á sjóminjasöfnum, sýningum, vitum og verkefnum sem hafa verið unnin eða er í vinnslu. Einnig er ætlunin að safna sem mestu af útgefnu efni, ritgerðum, greinum og fyrirlestrum og gera lista yfir bækur sem út hafa komið og fjalla um strand- og fiskveiðimenningu. Gagnagrunnurinn mun því hafa að geyma í máli og myndum, jafnt efni um sjósókn, hlutverk kvenna og karla í fiskveiðimenningu, umhverfisþekkingu, vita, matarmenningu, tónlist, báta, verbúðarleiki og sjóskrímsli, svo eitthvað sé nefnt. Tilkoma gagnasafnsins mun auðvelda aðgengi að upplýsingum og kynningu á einum dýrmætasta þætti íslenskar menningararfleiðar í nútíð sem fortíð.

Nýjast