Ný reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

Sinubruni í Eyjafirði fyrir nokkrum árum (akureyri.is)
Sinubruni í Eyjafirði fyrir nokkrum árum (akureyri.is)

Gefin hefur verið út reglugerð um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Reglugerðinni er ætlað að vernda umhverfið og heilsu fólks með því að koma í veg fyrir mengun af sinubrennu, öðrum gróðureldum og meðferð elds á víðavangi. Annað markmið reglugerðarinnar er að tryggja öryggi og vernda líf og eignir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

„Reglugerðin kveður á um þær reglur sem gilda um meðferð elds á víðavangi og þá skyldu hvers og eins að gæta ítrustu varkárni við meðferð elds. Sérstaklega er fjallað um sinubrennu, sem er óheimil nema á lögbýlum þar sem stundaður er landbúnaður en hún er einungis heimil í rökstuddum tilgangi í jarðrækt eða búfjárrækt og þá samkvæmt skriflegu leyfi sýslumanns. Einnig þarf leyfi fyrir bálköstum og brennum og er í reglugerðinni fjallað um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá slíkt leyfi,“ segir í fréttatilkynningunni. /EPE

Nýjast