Ný kirkjumiðstöð opnuð á Akureyri

Kirkjubær, ný kirkjumiðstöð á Akureyri, hefur verið opnuð við Ráðhústorg á Akureyri. Þar stendur nú yfir ljósmyndasýningin, Hjálparstarf í Darfúr skilar árangri en ljósmyndarinn Paul Jeffrey tók myndirnar. Kirkjubær er samstarfsverkefni Vígslubiskupsembættisins á Hólum, Eyjafjarðarprófastsdæmis og Æskulýðssambands kirkjunnar. Þar er hægt að skoða efni frá Skálholtsútgáfunni og fá upplýsingar um kirkjustarfið en opið er kl. 11-15 alla virka daga í desember. Í Kirkjubæ starfa Jóna Lovísa Jónsdóttir umsjónarmaður Kirkjubæjar og fulltrúi ÆSKÞ, Guðmundur Guðmundsson héraðsprestur og Ásta Garðarsdóttir umsjónarmaður vinaheimsókna. Auk þess hafa prófastur Eyjafjarðarprófastsdæmis og vígslubiskup þar aðstöðu. Fyrsta verkefnið í Kirkjubæ er sýning á ljósmyndum eftir Paul Jeffrey. Hann starfar fyrir Alþjóðaneyðarhjálp kirkna, ACT, sem Hjálparstarf kirkjunnar er aðili að. Ljósmyndirnar voru teknar í Darfúrhéraði í Súdan í júlí 2007 og telur heildarsýningin um 230 ljósmyndir. Þrjátíu myndir verða sýndar í þrem hlutum í Kirkjubæ og safnaðarheimilum Glerárkirkju og Dalvíkurkirkju í desember til að segja sögu íbúa Darfúr. Utanríkisráðuneytið og Hjálparstarf kirkjunnar létu gera þessa sýningu og vilja með því sýna fram á þann árangur sem framlag Íslendinga hefur skilað í Darfúr. Þar sem Íslendingar hafa lagt verkefninu lið með 12 milljónum króna er mikilvægt að almenningur fái að fylgjast með hvernig fjármunum er varið. Paul Jeffrey hefur náð að segja þessa sögu í myndum á áhrifaríkan hátt en sjón er sögu ríkari.

Nýjast