Ný flugstöð í útboð

Akureyrarflugvöllur.
Akureyrarflugvöllur.

Isavia Innanlandsflugvellir ehf. hefur óskað eftir tilboðum í fullnaðarhönnun á viðbyggingu við flugstöðina á Akureyrarflugvelli ásamt hönnun breytinga á núverandi flugstöð til að mæta aukinni þörf vegna millilandaflugs. Markmiðið er að bæta aðstöðu og þjónustu við flugfarþega til og frá flugvellinum.

Um er að ræða 1.000m2 stálgrindarbyggingu fyrir millilandaflug og aðlögun núverandi flugstöðvar að breyttri notkun.

Í skýrslu aðgerðahóps sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði til að meta þörf fyrir aðstöðu og þjónustu í flugstöð á Akureyrarflugvelli og kynnt var í byrjun árs kom fram að nauðsynlegt þykir að byggja við flugstöðina á Akureyrarflugvelli til að geta veitt viðunandi þjónustu samtímis fyrir millilanda- og innanlandsflug. Núverandi flugstöð þykir of lítil og aðstaðan ófullnægjandi til að sinna hlutverki sínu til framtíðar. 

Kostnaður er áætlaður um 900 m.kr. Áætlað er að við framkvæmdir við viðbygginguna verði til um 50 ársverk. Samhliða stækkun á flugstöðinni er áætlað að flughlaðið á Akureyrarflugvelli verði stækkað til að koma á móts við aukin umsvif og öryggi vallarins. Áætlað er að við báðar þessar framkvæmdirnar verði til um 90 ársverk.


Athugasemdir

Nýjast