Kynningarfundur um Executive MBA námið við Háskóla Íslands haldinn í Múlabergi, Hótel KEA miðvikudaginn 28.maí kl. 12:15.
Executive MBA-námið við Háskóla Íslands fagnar 25 ára afmæli í ár. Frá upphafi hafa um 660 einstaklingar brautskráðst úr náminu, margir hverjir í leiðandi stöðum í íslensku atvinnulífi. Námið hefur þróast með tímanum og einkennist í dag af sérstöðu sinni, fagmennsku og framtíðarsýn.
Námið er kennt á íslensku, er leiðtogamiðað nám með áherslu á sjálfbærni og stafræna þróun. Lögð er áhersla á persónulega og faglega hæfni einstaklinga en einnig er mikil áhersla á öflugt samstarf við íslenskt atvinnulíf. Á síðasta ári tóku yfir 60 íslenskir stjórnendur, frumkvöðlar og sérfræðingar þátt í kennslu og fyrirlestrum, þar sem farið er yfir raunverulegar áskoranir í rekstri sem styrkir þannig tenginguna á milli fræða og framkvæmdar.
Alþjóðleg tenging námsins er sterk. Námið er vottað af AMBA-samtökunum og uppfyllir strangar kröfur um gæði stjórnendamenntunar. Hluti námsins er ferð til IESE Business School í Barcelona þar sem nemendur taka þátt í námskeiðinu „The Art of Leadership“, námskeið sem hefur mælst afar vel fyrir hjá nemendum.
Námið tekur tvö ár, sem að sögn nemenda, líða á svipstundu. Kennslan fer fram í staðnámi aðra hverja helgi, á föstudögum og laugardögum frá kl. 9 – 17.
Nemendahópurinn er fjölbreyttur og samanstendur af einstaklingum með ólíkan bakgrunn og úr öllum geirum atvinnulífsins. Hóparnir mynda sterk tengsl sín á milli, sem verða að mikilvægu tengslaneti í framtíðinni.
Við fengum Eirík H. Hauksson, MBA 2026, til þess að deila reynslu sinni af náminu og búsetu á landsbyggðinni en hann hefur ferðast aðra hverja helgi til Reykjavíkur til að sækja námið.
„Reynsla mín af Executive MBA náminu við Háskóla Íslands er afar jákvæð og hefur farið fram úr væntingum mínum á margan hátt. Námið einkennist af miklum gæðum, fjölbreyttum viðfangsefnum og hagnýtum verkefnum sem hafa aukið hæfni mína sem stjórnanda verulega. Kennararnir eru mjög hæfir og koma með góða blöndu af fræðilegri þekkingu og praktískri reynslu, sem gerir námið bæði áhugavert og gagnlegt í daglegum störfum.
Það sem þó stendur ekki síður upp úr eru frábærir og traustir bekkjarfélagar sem ég hef fengið að kynnast. Þessi hópur hefur ekki einungis auðgað námið heldur einnig stækkað tengslanetið mitt verulega, sem er mikill kostur bæði persónulega og faglega.
Að búa á landsbyggðinni og ferðast reglulega til Reykjavíkur vegna námsins hefur að sjálfsögðu í för með sér töluverðan ferðakostnað og tíma. En þessi fórn er hins vegar mjög vel þess virði þegar horft er á heildarávinning námsins. Sérstaklega stendur upp úr námsdvölin okkar við IESE háskólann í Barcelona. Sú reynsla er algjörlega einstök, enda veitir hún tækifæri til samtala, tengslamyndunar og samveru sem aldrei getur náðst með fjarnámi eða í hefðbundnu námsumhverfi.
Þetta er stjórnendanám þar sem mannleg samskipti og persónuleg samskiptafærni eru lykilatriði fyrir árangur. Ég mæli hiklaust með náminu og vil sérstaklega hvetja þau sem eru búsett á landsbyggðinni og eru að íhuga MBA nám við Háskóla Íslands að taka skrefið. Þrátt fyrir kostnað og fyrirhöfn við ferðalögin er ávinningurinn margfalt meiri og mun án efa skila sér til framtíðar.“
Eirikur H. Hauksson
Áhugasömum er bent á kynningarfund á Akureyri um námið en fundurinn fer fram miðvikudaginn 28. maí í Múlabergi, Hótel KEA og hefst kl. 12:15. Á fundinum verður fulltrúi núverandi nemenda, sem deilir sinni reynslu af náminu.
Nauðsynlegt er að skrá sig á fundinn, með því að smella hér: https://mba.hi.is/is/kynningarfundur-akureyri
Umsóknarfrestur um námið er til 5.júní, hægt er að nálgast allar frekari upplýsingar um námið og sækja um á heimasíðunni www.mba.is