Númers- og réttindalaus

Um miðjan dag í gær veittu lögreglumenn athygli bifreið sem ekið var í átt til Akureyrar skammt norðan bæjarins og var ekkert skráningarnúmer framan á bifreiðinni. Er ökumaður bifreiðarinnar varð þess var að lögreglan hyggðist ná tali af honum ók hann rakleitt heim að næsta sveitabæ og þar bak við fjós til að forðast laganna verði.

Í ljós kom að þarna voru á ferð tveir piltar sem höfðu lent í höndum lögreglunnar á Blönduósi nóttina áður og höfðu lögreglumenn þar klippt númerin af bifreiðinni þar sem hún hafði ekki verið færð til skoðunar á tilsettum tíma. Sjá mátti strax að ökumaður var ölvaður og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri til skýrslutöku og upplýsti hann þá einnig að hann væri sviptur ökuréttindum frá 2002. Við frekari skoðun á ferli mannsins, sem reyndist þó nokkur, kom í ljós að nú í aprílmánuði hafði hann þrisvar sinnum áður verið tekinn við akstur og hafði hann verið ölvaður í tveimur þeirra tilvika. Ljóst er að sumir láta sér ekki segjast.

Nýjast