Notaleg kvöldstund með ljúfum veitingum á Friðriki V

Konur með penna, er yfirskrift á dagskrá í tali og tónum, sem flutt verður á veitingastaðnum Friðriki V á morgun laugardag kl. 20.00, þar sem í boði verður notarleg kvöldstund með ljúfum veitingum. Skyggnst verður aftur í tímann, með flutningi á ljóðum og sögum eftir nokkrar norðlenskar skáldkonur, sem lifðu á 19. og 20. öld, sagt frá lífshlaupi þeirra og dagskráin krydduð með söng.  

Um er að ræða samstarfsverkefni Leikfélags Akureyrar og Friðriks V, í umsjón Maríu Sigurðardóttur. Flytjendur eru; Bryndís Ásmundsdóttir, Jana María Guðmundsdóttir, Sunna Borg, María Þórðardóttir, Arnrún Magnúsdóttir og María Sigurðardóttir.

Norðlensku skáldkonurnar byrjuðu sumar að yrkja strax á barnsaldri. Fæstar þeirra áttu lausa stund til skrifta fyrr en seint á kvöldin eftir langan vinnudag og þegar öll börnin voru komin í ró. Við kertaljós í þröngum kotum sköpuðu þær dýrmætar perlur í bókmenntasjóð íslensku þjóðarinnar. Þó hefur fátt verið gefið út af ljóðum og sögum þessara formæðra okkar og var fæstum þeirra gert jafnhátt undir höfði og karlkyns kollegum þeirra.

Nýjast