Norðurþing: Vilja endurskoða aðild að einstaka rammasamningum

Mögulega gætti líka ákveðins misskilnings innan stjórnsýslunnar um þau áhrif sem aðild að þeim samningi kynnu að hafa,“ segir sveitarstjóri.


 

Á sveitastjórnafundi Norðurþings 16. mars sl. var tekin til umræðu aðild sveitarfélagsins að Ríkiskaupasamningi en áður hafði Skipulags- og framkvæmdaráð bókað að æskilegt væri að Norðurþing endurskoðaði aðild sína að rammasamningi Ríkiskaupa sem lítur að þjónustu iðnmeistara o.fl.

Á fundinum var samþykkt tillaga Helenar Eydísar Ingólfsdóttur að vísa umræðu  um aðild að einstökum liðum samningsins til Byggðarráðs.

Minnihlutinn áhyggjufullur

Bergur Elías

Bergur Elías Ágústsson, B-lista tók til máls á fundinum og viðraði þar áhyggjur sínar af samningunum. Hann benti á að þann 17. apríl 2019 hafi borist erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga til allra sveitarfélaga, þar með talið Norðurþings. Efni málsins var að vekja athygli sveitarstjórnamanna á því að lög um opinber innkaup tækju að fullu gildi 31. maí 2019. En þá varð til gjörbreytt umhverfi innkaupa hjá sveitarfélögum landsins.

Eins og fram kom í máli Bergs var erindið aldrei kynnt kjörnum fulltrúum, eða tekið fyrir í nefnd þrátt fyrir að erindið væri sent til sveitarstjórna. Málið var hins vegar kynnt innan stjórnsýsluhússins til stjórnenda af fjármálastjóra með fundi.

Þetta setur Bergur varnagla við og telur að málið hefði átt að fá pólitíska umræðu innan sveitarfélagsins, svo taka mætti ákvörðun um hvaða liðum samningsins Norðurþing vill vera aðili að og hverjum ekki. „Þetta hafa sveitarfélög gert, samanber Akureyrarbæ, Akranesbæ og Borgarbyggð, svo eitthvað sé nefnt,“sagði Bergur en Akureyrarbær sagði sig frá 20 samningum.

Um mikið hagsmunamál er að ræða fyrir Norðurþing enda um talsverðar fjárhæðir að ræða. Árið 2020 voru verkkaup Norðurþings (Orkuveita Húsavíkur undanskilin) um 430 milljónir króna, þar af voru rúmar 178 milljónir í gegn um útboð en skylt er að bjóða út verk sem fara yfir 49 milljónir.

Segir upplýsingagjöf ábótavant

Kristján Þór

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings var ekki viðstaddur á sveitarstjórnarfundinum en staðfestir í svari til blaðsins að Norðurþing sé með fulla aðild að samningunum og því ekki með neina fyrirvara eða undanþágur frá rammasamningum sérstaklega. „Því miður er upplifun okkar starfsmanna og reyndar starfsmanna fleiri sveitarfélaga sú að upplýsingagjöf Ríkiskaupa varðandi aðild að rammasamningum og frásögn sveitarfélaga frá einstökum hlutum rammasamninga hafi verið nokkuð ábótavant. Það mál er til skoðunar á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga eftir ábendingu Norðurþings og fleiri sveitarfélaga þar um. Við berum væntingar til þess að eftir þau samskipti muni upplýsingagjöf til aðila að rammasamningum, þ.e. kaupenda verða skýrari og þar með augljósara hvenær sveitarfélaginu er heimilt að segja sig frá einstökum hlutum rammasamningsins. Það liggur þó alveg fyrir vilji kjörinna fulltrúa til þess að endurskoða aðild að einstökum rammasamningum jafnóðum og til endurnýjunar þeirra kemur sbr. umræðu á síðasta fundi skipulags- og framkvæmdaráðs. Ekki hvað síst samninginn sem snýr að iðnmeisturum, en sannast sagna var umræða er sneri að þeim hluta samningsins ekki tekin af nægjanlegri dýpt þegar óskað var eftir aðild að rammasamningnum síðast, vorið 2019. Mögulega gætti líka ákveðins misskilnings innan stjórnsýslunnar um þau áhrif sem aðild að þeim samningi kynnu að hafa. Þetta þarf því að endurskoða,“ segir Kristján.

Viðurkennir mistök

Kristján viðurkennir jafnframt mistök að erindið frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga frá 17. apríl 2019, sem stílað er á sveitarstjórnir, hafi ekki verið kynnt innan fastanefnda. „Þá er ljóst að brotalöm hefur orðið til þess að það bréf var ekki lagt fram til kynningar í byggðarráði Norðurþings á sínum tíma. Innihald bréfsins snýr að þeirri staðreynd að frá og með 31. maí 2019 taki lög um opinber innkaup nr. 120/2016 að fullu gildi gagnvart sveitarfélögum. Sú vitneskja var þó vel kunn innan stjórnsýslu Norðurþings, enda hafði borist bréf 16. apríl nokkurn vegin um sama málefni, en var ekki stílað til sveitarstjórna, heldur til meðferðar innan stjórnsýslunnar á fjármálasviði  og fór fjármálstjóri fram m.a. með kynningu á málinu fyrir þá aðila sveitarfélagsins sem koma að innkaupum í aðdraganda lagasetningarinnar. Byggði sú kynning m.a. á upplýsingum sem ýtt var að sveitarfélögum gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga og vitnað er til í ofangreindu bréfi frá því í apríl 2019.“

Kristján tekur fram að á þeim tæplega tveimur árum síðan lög um opinber innkaup tóku að fullu gildi fyrir sveitarfélög hafi sveitarfélög verið að feta sig áfram í þessum málum. „
„Hefur það leitt til þess að mörg sveitarfélög hafa sett sér innkaupastefnu og innkaupareglur. Það hefur verið gert í tilfelli Norðurþings til þess að setja kúrs og skýra innkaupaferla,“ segir Kristján en innkaupastefna og innkaupareglur Norðurþings voru samþykkt á fundi sveitarstjórnar þann 1. desember sl. Innkaupareglurnar má lesa með því að smella hér.

Það sem m.a. kom fram í umræðum um málið á sveitarstjórnafundinum var nauðsyn þess að sveitarfélagið versli við heimaaðila eins og frekast er unnt. Þess vegna er nauðsynlegt að verktakar og þjónustuaðilar á svæðinu séu aðilar að rammasamningum Ríkiskaupa. Aðspurður segir Kristján að ekki hafi verið haldnir sérstakir upplýsingafundir um rammasamninga sem beint er að fyrirtækjum á svæðinu „Við höfum ekki horft á það sem okkar beina hlutverk, en mögulega í ljósi umræðunnar í sveitarstjórn er það eitthvað sem við skoðum betur í framhaldinu og þá í samráði við Ríkiskaup,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast